23.06.2009 22:33

10. sigurinn í röð á Vopnafjarðarvelli

Einherji vann í kvöld glæsilegan 5-2 sigur á Huginn. Leikurinn var góð skemmtun, áhorfendur margir og duglegir að hvetja sín lið, veðrið frábært og Einherji vann. Gerist það betra?
Það voru fjölmargir sem lögðu leið sína á leikinn á Vopnafjarðarvelli í kvöld. Með krökkum, ársmiðahöfum, u.þ.b. 100 seldum miðum á staðnum og svo nokkrum sem ekki borguðu, má áætla að það hafi ekki verið u.þ.b. 150, ef ekki fleiri. Það verður að teljast glæsilegt í tæplega 700 manna sveitarfélagi og vonandi er þetta það sem koma skal. Reyndar eiga nokkrir hressir Seyðfirðingar þátt í þessum fjölda. En að leiknum...

Byrjunarlið:
               Tomislav
Arnar- Bjarni - Davíð - Daníel
                Helgi
Daði - Símon - Gísli(fyrirliði)- Gunnlaugur
                 Elmar

Varamenn: Ívar(Inn fyrir Gulli á 46.), Marteinn(inn fyrir Elmar á 78.) Bjarki, Þorsteinn og Ragnar(allir inn á 88. fyrir Arnar, Helga og Daníel)

Takið sérstaklega eftir því að aðeins 4 af 16 leikmönnum eru ekki Vopnfirðingar.

Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað en þó höfðu Huginsmenn undirtökin í byrjun. Lítið gekk í sóknarleik Einherjamanna og greinilegt að strákarnir söknuðu Donna þessar fyrstu mínútur. Síðan átti eftir að koma í ljós að gamla klisjan "maður í manns stað" á við hjá þessu liði. Á 26. mínútu dróg til tíðinda þegar fyrirliði Huginsmanna tók þverhlaup hjá vörninni, sem klikkaði á rangstæðugildrunni, stakk sér inn fyrir og skoraði. Eftir markið lifnaði yfir Einherjamönnum og aðeins 4 mínútum síðar átti Arnar frábæran bolta á fjarstöng þar sem Símon flaug eins og súperman og stangaði boltann glæsilega í netið. Það sem eftir lifði hálfleiksins fengu bæði liðin sín tækifæri og m.a. bjargaði Tomislav glæsilega rétt fyrir leikhlé.

Í seinni hálfleik hélt Tomislav uppteknum hætti og varði vel. En annars dróg fyrst almennilega til tíðinda á 55. mínútu. Gísli var felldur eftir að hafa sólað markvörð Hugins og vítaspyrna dæmd, sem fór vægast sagt í taugarnar á Huginsmönnum. Davíð steig á punktinn og skoraði örugglega. Aðeins 2 mínútum síðar voru Huginsmenn ekki alveg búnir að ná sér eftir vítið. Davíð tók aukaspyrnu sem Gísli flikkaði áfram á Daða sem lagði boltann snyrtilega framhjá markverðinum, 3-1. Á 85. mínútu kom svo síðasti naglinn í líkkistu Hugins. Símon átti skot ca. 30 metra færi sem flestir héldu að væri að fara yfir en datt svo í bláhornið. í uppbótartíma komu svo 2 mörk. Það fyrra var svakalegt mark úr aukaspyrnu hjá Huginn og síðan slapp Matti "super-sub" einn inn fyrir, sólaði markvörðinn og skoraði. Lokatölur 5-2


Davíð að fara að taka vítaspyrnuna

Þessi fékk að fagna tvisvar

Það er frábært að sjá hungrið og viljann sem einkennir Einherjaliðið þessa dagana. Það hefur líka skilað sér því liðið er eitt í 2. sæti þegar fyrsti þriðjungur riðlakeppninnar er búinn. Einherji var alls ekki að yfirspila Huginn í þessum leik þrátt fyrir 5 mörk og nokkrar flottar sóknir. En fótbolti er ekki flókinn íþrótt, Einherji skoraði fleiri mörk og vann. Tomislav átti enn og aftur góðan leik og varði allavega 2svar stórglæsilega. Hann tók svo flest sem hann átti að taka, þrátt fyrir úthlaup sem minna á Frakka sem er svipað hárprúður og Einar Björn. Vörnin var ekki alveg nógu góð á köflum, en það fer að smella saman þegar Bjarni Þorsteinsson kemst betur í takt við liðið. Miðjan var svona upp og ofan. Helgi hefur og getur spilað betur en Gísli og Símon(maður leiksins að mati undirritaðs) sýndu takta og gáfu lítinn frið. Daði var sprækur á köflum en Gulli komst ekki í takt við leikinn þann hálftíma sem hann spilaði heill. En skv. nýjustu upplýsingum er hann með brákað rifbein og vonandi verður það fljótt að jafna sig! Elmar var svolítið einmanna uppi á toppi en sýndi þó nokkru sinnum hvað hann getur. Leikmaður sem á meira inni. Síðan áttu allir varamennirnir góða innkomu og þá sérstaklega Ívar og Matti. En eins og áður var það liðsheildin og sigurviljinn sem skóp þennan sigur. Frábært. Liðið á hrós skilið.

Næsti leikur hér heima er toppslagur gegn Völsungi á laugardaginn, 27. júní kl 14. Síðast tapaði Einherji illa 7-1 og það má ekki gerast aftur. Oft var þörf en nú er nauðsyn - fjölmennum og öskrum úr okkur lungun!

Áfram Einherji!

-KG
Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 170
Flettingar í gær: 1496
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 310795
Samtals gestir: 75097
Tölur uppfærðar: 22.9.2019 09:44:42