30.07.2009 22:55

Annað tapið í röð á Frímerkinu

Það var sárt þegar dómarinn flautaði til leiksloka á Vopnafjarðarvelli í skítaveðri í kvöld. Einherji tapaði 3-1 fyrir Völsungi. Donni skoraði mark Einherja úr víti

Byrjunarlið:
                  Tomislav
Smári   Bjarni    Davíð   ívar
            Helgi      Símon
Donni         Gulli         Daði
                 Matti

Bekkur: Kristófer, Bjartur, Elmar, Bjarki (komu allir inn á fyrir, Gulla, Matta, Donna og Símon)

Ekki leit það vel út hjá Einherjamönnum í upphafi leiks í kvöld. Fyrstu mínúturnar voru einstefna og Völsungur lág á heimamönnum. Þeir sköpuðu sér þó ekki mörg færi en áttu hættuleg skot eftir jörðinni sem Tomislav átti í erfiðleikum með á rennblautum vellinum. En þegar leið á fór Einherji að komast meira inn í leikinn og sýna eitthvað fram á við. Undir lok hálfleiksins fékk Donni boltann á vinstri kantinum. Sólaði tvo Völsunga glæsilega, slapp inn í vítateig þar sem hann var felldur og vítaspyrna dæmd. Hann steig svo sjálfur á punktinn og skoraði örugglega. 1-0. Lítið gerðist eftir það nema að Donni fékk gott færi nokkrum mínútum seinna en skaut framhjá.

Í seinni hálfleik hélt leikur Einherjamanna svo áfram að batna. Völsungar komust lítið áleiðis í gegnum sterka vörn Einherja en aftur á móti voru heimamenn ekki að skapa sér mikið. En þegar hálfleikurinn er ca. hálfnaður tekur dómarinn stóra ákvörðun. Þá fékk Davíð sitt annað gula spjald og þar með rautt. Undirritaður sá ekki atvikið og ætlar ekkert að fullyrða, en það voru skiptar skoðanir um atvikið.  Eftir þetta var allt loft farið úr Einherja og Völsungur skoraði með skalla u.þ.b. mínútu síðar. 1-1. Svo missti Smári sóknarmann Völsungs klaufalega framhjá sér. Sóknarmaðurinn skaut, Tomislav varði, en það var annar sóknarmaður Völsungs sem var mættur til að klára. 2-1. Síðan kom 3. markið. Það var svipað að því leiti að haltrandi Tomislav náði ekki að halda eða slá frá blautan boltann og það var Völsungsmaður sem var á tánum og náði að skora. 3-1 lokatölur

Maður veit eiginlega ekki hvað á að segja eftir þennan leik. Erfitt er að kenna einhverjum um. Þó dómarinn hafi verið slakur er staðreyndin sú að Völsungur voru bara betri og unnu verðskuldað. Engu að síður sárt því þetta hefði vel geta dottið okkar megin. Maður setur samt spurningamerki við að það sé Seyðfirðingur settur á þennan leik.

En þetta er búið og gert og menn verða að horfa á næsta leik, og leiki. Oft var þörf á karakter hjá liðinu og stuðningi frá okkur áhorfendum, en nú er nauðsyn! Næst er erfiður útileikur á móti Draupni. Þá verða Davíð þjálfari og Donni fyrirliði í banni svo það þurfa fleiri að stíga upp og drífa liðið áfram. Ég efast ekki um að það verði gert, enda hafa menn nægan tíma til að undirbúa sig fyrir þann leik sem er eftir 9 daga.

Myndir sem Jósep H Jósepsson tók á leiknum og fær hann séstakar þakkir fyrir:Áfram Einherji!

-KG
Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 309125
Samtals gestir: 74910
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 02:25:18