11.08.2009 22:41

Úrslitakeppnin úr sögunni?

Þriðja tapið í röð á heimavelli. 1-2 á móti Dalvík/Reyni, Donni með mark Einherja.

Byrjunarlið:
                   Tomislav
Arnar    Ívar       Bjarni      Daníel
         Helgi Gísli Símon
Daði                                 Donni
                    Matti

Varamenn: Bjartur, Kristófer, Bjarki, Gulli, Smári

Leikskýrslan

Í stuttu máli var fyrri hálfleikur frekar leiðinlegur. Lítið var um færi, nema tvö sem D/R fékk, annars bara skot og hálffæri. Hálfleikurinn var nokkuð jafn þó að D/R hafi verið eitthvað meira með boltann.

Fyrstu 35 mínútur seinni hálfleiks, voru skelfilegar. D/R fengu nokkur færi og tvö þeirra enduðu í netinu. Eftir seinna markið rifu þó heimamenn sig loksins upp af rassgatinu og fóru að spila almennilega 1-2 snertinga fótbolta. Það skilaði sér í því að Einherji sótti án afláts síðustu mínúturnar en náði því miður aðeins að setja eitt mark. Það var Donni sem skoraði eftir glæsilega sendingu Helga (leiðréttið ef það var einhver annar)inn fyrir flata vörn D/R. Svo komu nokkur færi eins og frír skalli sem Gulli fékk rétt áður en lokaflautið gall. Einnig má geta þess að Einherji átti að fá vítaspyrnu sem var svo augljós að það sást frá Suðurpólnum að það væri víti. Hvað sem því líður var þetta verðskuldaður sigur sterks liðs Dalvíkur/Reynis, þeir voru einfaldlega betri í kvöld

Það er ekki hjá því komist að pæla í hvað er að hrjá Einherjaliðið þessa dagana. Vantar upp á líkamlegt form? Er reynsluleysið að koma í ljós?  Einbeitingarleysi? Metnaðarleysi? Andleysi? Málleysi? Er liðið bara ekki betra? Það er allavega eitthvað sem veldur því að liðið hefur tapað þremur heimaleikjum í röð og í raun ekki leikið vel í 6 leiki í röð.

En það var þó ekki allt neikvætt við þennan leik. Bjarni var að vanda traustur, Donni reyndi og stríddi oft varnarmönnum Dalvíkur/Reynis. Tomislav gerði sitt og alls ekki hægt að kenna honum um mörkin. Gísli var oft á tíðum sterkur. Svo áttu nokkrir sín moment, eins og Danni, en það var ekki nóg. Síðasta korterið var gott hjá öllu liðinu og vonandi það sem koma skal. Þar áttu frískir varamenn sinn þátt og verður að minnast á að efnilegur drengur að nafni Bjartur Aðalbjörnsson, sýndi að hann er óhræddur og alveg að verða tilbúinn í meistaraflokksbolta.

Þó það hafi í sjálfu sér verið slatti af fólki sem mætti á völlinn í kvöld, hafa ekki verið færri á heimaleik í sumar. Það er leiðinlegt að ekki fleiri hafi séð sér fært að mæta á þennan svakalega mikilvæga leik. Vonandi verður annað uppi á teningnum í síðasta heimleiknum og Vopnfirðingar fjölmenni sem aldrei fyrr.

En fyrst er útileikur gegn Leikni kl 14 á Laugardaginn. Strákarnir hljóta að ná að rífa sig upp og mæta grimmir í þann leik. Þó að möguleikarnir á að komast í úrslitakeppnina séu litlir, verður tímabilið vonandi klárað með sæmd.

Áfram Einherji! alltaf..

-KG
Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 309125
Samtals gestir: 74910
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 02:25:18