10.06.2010 23:13

3-0 gegn Hugin

Þangað til fyrir klukkustund síðan voru liðnir 11 mánuðir frá sigri meistaraflokks Einherja á Íslandsmóti, eða 8 leikir. Best er að vera ekkert að skafa ofan af því: Það er skelfilegt. Þess vegna var sigurinn í kvöld afskaplega sætur.Liðið í kvöld:

            Tomo

Arnar         Bjarni          Helgi        Daníel
     
Daði         Gísli               Símon      Davíð
       
                  Elmar            Ivo

Bekkur: Bjarki, Bjartur, Kristófer, Gulli, Siggi

Fyrri hálfleikurinn var eign Einherja frá upphafi til enda. Svo miklir voru yfirburðirnir að það vantaði bara lögfræðinga til að skrifa upp á formlega eign á hálfleiknum. Þetta sást strax í byrjun og gengu Huginsmenn um þessa eign Einherja af ansi mikilli virðingu þegar varnarmaður þeirra afgreiddi fyrirgjöf Daða glæsilega í hornið. Staðan 1-0 og leikurinn rétt að byrja. Síðan tók Einherji öll völd á vellinum. Samkvæmt óvísindalegri talningu fréttaritara átti Einherji 8 dauðafæri í fyrri hálfleik og nánast óskiljanlegt að boltinn skyldi ekki ******* yfir línuna. Þrátt fyrir þunga sókn og mörg færi var staðan ennþá 1-0 flautað var til leikhlés.

Í síðari hálfleik léku Einherjamenn á móti vindi og virtist það hafa eitthvað að segja um það að leikurinn varð mun jafnari. Þó hafði einnig mikið að segja að Seyðfirðingar mættu mun grimmari til leiks. Huginn fór að ná að skapa hættu og t.d. slapp sóknarmaður þeirra aleinn í gegn en Tomislav bjargaði glæsilega. Snemma í seinni hálfleik kom Gulli inn á fyrir Elmar og það heppnaðist svo sannarlega vel. Ekki leið langur tími þar til Gulli og Ivo voru komnir einir á móti fámennri vörn Hugins. Gulli gaf á Ivo sem var að komast í dauðafæri en var, að því er virtist (úr 100+ metra fjarlægð) rifinn niður og vítaspyrna dæmd. Gísli fór á punktinn og setti boltann örugglega í hornið - mikill léttir. Stuttu síðar var svo hinn sívinsæli "síðasti nagli", rekinn í líkkistu Hugins. Gulli tók sig til og sólaði meirihluta varnarmanna Hugins og renndi boltanum í markið. Glæsilega að verki staðið og 3-0 sigur í höfn.

Það var allt annað að sjá til liðsins í dag miðað við hvernig það var á móti Dalvík um síðustu helgi. Þó að andstæðingurinn hafi kannski ekki verið alveg jafn góður, þá áttu okkar menn góðan leik. Í raun er ekkert út á leik Einherja að setja og enginn sem átti lélegan dag. Það er kannski helst færanýtingin sem hefði mátt fara betur, svo það er ekki ólíklegt að það verði skotæfing á morgun. Það vakti athygli að uppstillingin í kvöld var talsvert öðruvísi en í síðasta leik og bara allt síðasta sumar. Þessi breyting virtist virka vel og Davíð og Helgi, sem voru báðir í nýrri stöðu, léku mun betur en síðast, auk þess sem vörn Hugins lenti í tómu veseni við að elta tvo framherja. Einnig ber að nefna að það var mjög gaman að sjá að varamennirnir mættu grimmir til leiks svo það er og verður samkeppni um stöður, sem er bara jákvætt.

Þrátt fyrir viðurstyggilegt veður var mætingin á völlinn ágæt, þó manni finnist alltaf að það mættu vera fleiri. Það var mjög gaman að sjá að nokkrir vaskir menn tóku sig til, mættu með trommur og hvöttu Einherja hátt og snjallt. Vonandi það sem koma skal!

Því miður er langt í næsta heimaleik en hann verður gegn Leikni þann 1. júlí

Áfram Einherji!

-KG
Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 309125
Samtals gestir: 74910
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 02:25:18