12.06.2012 11:09

Umfjöllun, Einherji-Björninn


Einherji- Björninn
Björninn og Einherji komu með svipað hugarfar inn í leikinn þar sem að bæði lið höfðu tapað fyrstu tveimur leikjunum á tímabilinu en borið sigur úr býtum í þriðju umferð. Þess má þá geta að sigrarnir komu í báðum tilvikum í fyrsta heimaleik liðanna.

Stuðningsmenn Einherja hafa verið duglegir að mæta á leiki og greinilegt er að miklar vonir eru bundnar liðinu fyrir þetta tímabil, sbr. um það bil sextíu manna stuðningslið sem fór í seinasta útileik.

Að kynningum og handaböndum loknum flautaði Jón Óskar Þórólfsson og leikar hófust.

Einherjamenn byrjuðu vel og greinilegt var að þeir ætluðu að halda uppteknum hætti á heimavelli. Strax á 7. mínútu kom fyrsta færið en þá kom fín fyrirgjöf en Andri Þór Arnarson varði vel. Boltinn barst út á framherja Einherja, Helga Má Jónsson, en hann hitti ekki boltann og sóknin rann út í sandinn.

Einherjar héldu áfram að sækja upp kantana þar sem að Sigurður Donys Sigurðsson dældi boltum fyrir markið en varnarmenn Bjarnarins voru héldu höfði og náðu alltaf að stýra hættunni frá.

Á 13. mínútu mátti sjá varnareðlið í Helga Má Jónssyni þar sem hann tæklaði varnarmann Bjarnarins og Jón Óskar dæmdi réttilega aukaspyrnu. Birnirnir frá Grafarvogi flýttu sér þá í sókn en voru dæmdir rangstæðir af hinum helstrípaða línuverði, Viðari Jónssyni.

Tveimur mínútum síðar náði Einherjamaðurinn, Bjarki Björnsson, að troða sér í gegn um miðjuna með mikilli elju. Hann var þá tekinn niður og aukaspyrna dæmd. Sigurður Donys Sigurðsson tók þá spyrnuna sem fór rétt yfir markhornið þrátt fyrir að hafa haft viðkomu í varnarveggnum.

Á 18. mínútu var vinnuþjarkurinn Bjarki Björnsson enn að ógna miðju Bjarnarins og náði þá að stinga boltanum upp í hornið þar sem að Ryan McCann hafði laumað sér. Hann setti þá boltann fyrir en varnarmenn Bjarnarins hreinsuðu í horn og voru þá heppnir að hafa ekki sett boltann í sitt eigið mark.

Tveimur mínútum síðar kom enn ein fyrirgjöfin frá Sigurði Donys Sigurðssyni og náði Helgi Már Jónsson að setja boltann á markið en Andri Þór Arnarsson var enn á tánum og varði vel.

Vopnfirðingarnir höfðu stjórnað leiknum en Björninn hafði þó stundum verið nálægt því að komast í færi. Björn Halldórsson var að spila sinn annan leik fyrir Einherja eftir að hafa tekið hanskana af hillunni þegar markvörður Einherja meiddist. Hann hafði þá verið klókur að loka á sóknarmenn Bjarnarins áður en þeir náðu að skapa almennileg færi.

Á 25. mínútu tók Sigurður Donys sér frí frá fyrirgjöfunum og sótti á vítateigsbogann. Hann fór þá illa með tvo og reyndi að setja boltann innanfótar. Boltinn lenti hársbreidd utan við stöngina.

Það var þá loks á 28. mínútu sem sóknir Einherjamanna báru ávöxt. Þá hafði múlasninn, Bjarki Björnsson, enn unnið vel á miðjunni og stakk honum upp í horn á hálfheimsmethafann, Ryan McCann. Hann setti boltann fyrir markið en í þetta skipti voru Grafarvogsmenn ekki jafn heppnir í hreinsuninni. Leifur Kristjánsson varð þá fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Vopnfirðingum var þó sama hver skoraði og fögnuðu ærlega. Þá heyrðist vel í þeim 120 stuðningsmönnum sem höfðu mætt á völlinn og að sjálfsögðu tók bílflautukórinn undir sönginn.

Þetta mark gaf Vopnfirðingunum aukna von og þeir héldu áfram að sækja. Á 31. mínútu hélt hinn smágerði Bjarki Björnsson áfram að vöðva menn og bar boltann upp miðjuna. Hann sendi þá boltann á Helga Má Jónsson sem reyndi að stinga boltanum inn fyrir vörnina en vörnin hreinsaði. Þar var hálfmaðurinn, Símon Svavarsson, réttur maður á réttum stað og náði að skalla knöttinn. Boltinn fór þó yfir markið.

Þremur mínútum síðar vann Bjartur Aðalbjörnsson boltann glæsilega fyrir heimamenn og þeystist upp völlinn með Helga Má og Bjarka. Þegar kom að stungusendingunni fór hún þó rétt fyrir aftan Helga Má og voru varnarmenn Bjarnarins heppnir að hreinsa.

Á 36. mínútu voru Einherjamenn komnir ofarlega á völlinn og reyndi Björninn að nýta sér það. Slapp þá sóknarmaður í gegn um vinstra hornið en Björn Halldórsson var enn vakandi í markinu og náði að loka vel.

Símon Svavarsson hafði reynt langskot fyrr í leiknum en það skoppaði í fangið á Andra Þór Andrasyni. Á 39. mínútu hafði Símon þó fundið styrkinn og þrumaði boltanum að marki en boltinn strauk þá þverslánna.

Tveimur mínútum síðar kom hægri bakvörðurinn, Daníel Smári Magnússon, með í sóknina og náði að plata þrjá menn áður en hann sendi lága sendingu fyrir markið. Björninn hreinsaði í horn og náðu þá einnig að skalla hornspyrnuna frá marki. Þar beið þó Ryan McCann og tók hann skot sem fór framhjá.

Þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma átti Bjartur Aðalbjörnsson frábæra tæklingu en Jón Óskar Þórólfsson sá hana frá röngu sjónarhorni og dæmdi brot. Einherjamenn unnu boltann þó fljótt aftur en misstu hann svo út af vellinum. Björninn missti þó boltann um leið þar sem að leikmaður þeirra var kominn inn á völlinn þegar hann tók innkastið og það fór ekki framhjá tyggjótöffaranum Viðari Jónssyni. Þetta lagðist ekki vel í þá og straujuðu þeir fyrsta mann sem fékk boltann. Sá óheppni var vinstri bakvörðurinn geðprúði, Reece Richie.

Jón Óskar Þórólfsson fékk svo loks að sýna mönnum gula spjaldið sitt þegar markaskorarinn Leifur Kristjánsson var áminntur fyrir að brúka munn á 48. mínútu.

Fyrri hálfleikur endaði svo með því að Sigurður Donys Sigurðsson, sem hafði fært sig yfir á hægri kantinn, fór illa með þrjá varnarmenn en átti svo skot í hliðarnetið.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega á 45. mínútu þar sem að Bjartur Aðalbjörnsson náði að skalla fyrirgjöf frá Sigurði Donys eftir að þeir Daníel Smári höfðu farið illa með varnarmenn. Boltinn lenti í stönginni og dansaði í kring um marklínuna. Jón Óskar var ekki viss hvort boltinn hafði farið inn en línuvörðurinn Magnús Björgvin Svavarsson var handviss og dæmt var mark. Einherji komnir í 2-0 forystu.

Á 47. mínútu sóttu þeir Bjarki Björnsson, Sigurður Donys og Helgi Már á þrjá varnarmenn en Bjarki var of seinn að losa sig við boltann. Björninn náði þar af leiðandi að losa hættuna.

Gestirnir flýttu sér þá í sókn en varnarmaðurinn ungi, Kristófer Einarsson, náði að hreinsa og mátti prísa sig sælan að hafa ekki skorað sjálfsmark. Björninn hélt áfram að reyna fyrirgjafir en þjálfarinn David Hannah og Kristófer Einarsson stóðu vaktina og skölluðu allt frá.

Á 50. mínútu sendi Sigurður Donys boltann inn fyrir vörn Bjarnarins og þar slapp Helgi Már Jónsson en fyrsta snertingin var föst og Andri Þór Arnarsson kom út úr markinu. Þeir lentu þá saman í boltann en Helgi virtist setja takkana á undan sér. Það fékk ekki á Andra Þór og héldu þeir áfram að slást um boltann. Helgi vann og skaut framhjá en þá hafði Jón Óskar þegar flautað og Andri Þór var farinn að veltast um úr sársauka. Helgi fékk réttilega gult spjald þó svo það hafi ekki verið fyrir leikræna tilburði Andra Þórs Arnarssonar.

Næstu fimm mínúturnar átti Björninn þrjár sóknir en þær bitu ekki nægilega fast til að ógna Birni Halldórssyni. Þá kom upp skemmtilegt atvik þar sem að Björn varði en þurfti að kasta sér á boltann til að halda honum. Þá heyrðust mótmæli frá hinum enda vallarins þar sem að hinn skrautlegi Andri Þór Arnarsson sakaði Björn um tefja leikinn. Þetta virtist hlýja stuðningsmönnum þar sem að napurt var í veðri.

Á 58. mínútu kom Gunnlaugur Bjarnar Baldursson inn á völlinn fyrir Bjarka Björnsson og greinilegt að Einherjamenn ætluðu ekki að láta sér nægja tvö mörk. Hann var þó jarðaður í fyrsta skiptið sem hann snerti boltann en Jóhann vildi ekki dæma á það. Björninn náði þá boltanum í stutta stund en Bjartur Aðalbjörnsson tók þá hefnibrot fyrir vin sinn Gunnlaug Bjarnar. Jóhann sýndi Bjarti þá gula spjaldið en þá sauð verulega upp úr nokkrum blóðheitum Einherjamönnum. Reynslumeiri menn náðu þó að draga þá yngri frá dómaranum og eftir nokkrar mínútur gat leikurinn haldið áfram. Þó svo áhorfendur og leikmenn hefðu reynt að minna á það að Einherji stýrði leiknum var blóðhitinn enn hár og Daníel Smári Magnússon fékk einnig gult spjald fyrir að brúka munn. Þá var Bjarti skipt út af fyrir Daða Petersson en Bjartur hafði átt frábæran leik. Á sama tíma gerði Björninn skiptingu þar sem að Jörgen Þór Halldórsson kom inn á fyrir Finnboga Rút Finnbogason.

Þegar allir höfðu róast hélt Einherji áfram að sækja og á 67. mínútu átti Sigurður Donys þá enn eina stungusendinguna en þá slapp Gunnlaugur Bjarnar Baldursson í gegn og kláraði vel undir Andra Þór í markinu. 3-0 fyrir Einherja og Björninn virtist missa alla von þar sem að þeir reyndu skot eftir að hafa tekið miðjuna en það var auðvelt fyrir Björn Halldórsson.

Á 71. mínútu fóru heimamenn í skyndisókn eftir að Björn Halldórsson hafði gripið fyrirgjöf Bjarnarins. Sigurður Donys slapp þá inn á mark frá vinstra horninu eftir góðan samleik. Hann var þá tæklaður aftan í fæturna og Jóhann dæmdi víti en sleppti þó spjaldinu. Sigurður Donys tók vítið sjálfur og setti það örugglega niðri við vinstri stöngina. Andri Þór Arnarsson sá þó við honum og varði vítið glæsilega.

Stórsóknirnar héldu svo áfram hjá heimamönnum og mínútu seinna gerði Gunnlaugur Bjarnar vel þar sem hann náði að halda boltanum í hægra horni vallarins. Einherjar náðu þá að spila og barst boltinn á baráttuhundinn, Símon Svavarsson, og ætlaði hann í þetta skiptið að skora úr langskoti sínu. Boltinn hafnaði þó í slánni en lenti í miðjum markteig þar sem að Helgi Már Jónsson beið eins og hrægammur og renndi boltanum í gegn um klofið á Andra Þór Arnarssyni. 4-0 fyrir Einherja.

Björninn náði ágætri sókn í kjölfari marksins en Björn Halldórsson náði enn einu sinni að loka á fyrirgjöfina. Hann sparkaði þá boltanum fram og Gunnlaugur komst upp í hornið þar sem hann gaf boltann fyrir markið. Helgi Már Jónsson var þar manna hæstur og náði að skalla boltann ofarlega á markið. Andri Þór Arnarsson varði það stórkostlega og boltinn fór í horn.

Á 78. mínútu átti Sigurður Donys fyrirgjöf á Helga Má en hann náði ekki að hitta boltann og Björninn hreinsaði. Þá gerði Björninn aðra skiptingu þar sem að Freyr Heiðarsson kom inn á fyrir Elvar Örn Guðmundsson.

Stuttu síðar átti miðjumaðurinn Ryan McCann stungusendingu út í hægra hornið þar sem að Sigurður Donys náði boltanum. Hann sótti strax á markið og fór fram hjá varnarmanni með rándýrum skærum. Skotið var þó ekki jafn dýrt og endaði í hliðarnetinu.

Næstu mínútur einkenndust af því að Einherji pressaði hátt og Björninn náði ekkert að spila boltanum en náðu þó alltaf að stoppa sóknir heimamanna.

Það var svo á 82. mínútu sem að Björninn náði að bíta til baka og kom þá góður bolti frá vinstri kanti á fjærstöng þar sem að leikmaður Bjarnarins var einn og óvaldaður. Björn Halldórsson óð út í hann en boltinn barst á Jörgen Þór Halldórsson sem gerði sér lítið fyrir og labbaði með boltann síðustu tvo metrana yfir marklínuna.

Þremur mínútum síðar fékk Daníel Smári Magnússon boltann á eigin vallarhelmingi og snéri til að senda aftur á varnarmann. Þá fékk hann fljúgandi leikmann Bjarnarins í bakið og féll við. Jóhann var upptekinn að öðru og dæmdi ekkert. Aðstandendur létu vel heyra í sér þar sem að Daníel lá eftir og hélt um höfuðið en Jóhann vildi ekki stoppa leikinn. Björninn nýtti sér ruglinginn og áttu þeir langskot sem sleikti markvinkilinn. Þá fór Jóhann að skoða Daníel en liðsstjóranum Magnúsi Má Þorvaldssyni leist ekkert á það hvernig farið var með son hans og lét heyra í sér. Jóhann varð þá þreyttur á Magnúsi og sýndi honum gula spjaldið. Hann spurði þá hvað Magnús héti til þess að bóka hann en efaðist um að trúverðugleika Magnúsar þegar hann sagðist heita Andrés Önd. Til þess að forðast allan misskilning sýndi hann honum rauða spjaldið og ákvað að ganga frá þessu seinna.

Leikurinn hélt áfram og tveimur mínútum síðar fékk fyrirliðinn, Sigurður Donys, gult spjald fyrir að tefja aukaspyrnu Bjarnarins. Síðustu andartök leiksins voru þá frekar róleg þó svo Björninn hafi blásið til stórsóknar. Þeir voru í þrígang dæmdir rangstæðir og Einherjar virtust nokkuð rólegir í þriggja marka forskotinu.

Jóhann flautaði loks leikinn af og er óhætt að segja að leikurinn hafi verið bráðskemmtilegur og fullur af fjöri. Með þessu komast Einherjamenn upp í fjórða sætið með 6 stig en Björninn verður að sætta sig við botnsætið í bili með 3 stig. Það er þó nokkuð ljóst að þessi riðill verður spennandi því eftir fjórar umferðir hafa öll lið knúið fram sigur og öll lið beðið ósigurs nema Huginn sem eru á toppnum með 10 stig.

Flettingar í dag: 66
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 317775
Samtals gestir: 75538
Tölur uppfærðar: 14.10.2019 07:45:13