26.06.2012 11:07

Einherji - KH

Einherji- KH

Fyrir þennan leik voru Einherjamenn komnir sex stig úr fjórum leikjum og sátu þá í fimmta sæti D-riðils. Huginn sátu þá á toppnum með tíu stig en Leiknir, KH og Augnablik fylgdu fast á eftir með sjö stig hvert. Álftanes var einu stigi á eftir Einherja en Björninn og Skínandi sátu neðstir með þrjú stig. Þessi riðill hefur byrjað ótrúlega en líklegt er að eftir næstu umferðir muni skilja liðin betur að.

Aðstæður á Vopnafjarðarvelli voru ágætar miðað við tíðarfar þó svo hitinn hafi ekki verið langt yfir frostmörkum. Mætingin var ekki sú besta en þó ekkert til að skammast sín fyrir ef miðað er við aðdáendahópa í þriðju deildinni. Leikmenn sýndu sig og sáu aðra, Kristján Óli Sigurðsson var settur á upptökuvélina og lyft upp í himininn. Þá flautaði Viðar Örn Hafsteinsson og leikar hófust.

Fyrstu mínúturnar voru tíðindalitlar á meðan leikmenn spörkuðu sig í gang og fengu yl í kroppinn. Fyrsta færið kom þá á 5. mínútu þegar Sigurður Donys Sigurðsson náði fyrirgjöf inn á teyg. Boltinn fann höfuðið á Helga en færið var í lengri kantinum og boltinn endaði örugglega í höndunum á Steinari Loga Sigþórssyni.

Einherjamenn virkuðu ekki jafn öruggir á boltanum og í seinasta leik á móti Birninum og greinilegt var að Hlíðarendamenn væru töluvert sterkara lið. Heimamenn héldu áfram að sækja upp í horn og reyna fyrirgjafir. Á 10. mínútu var það Helgi Már Jónsson sem náði boltanum fyrir úr hægra horninu og þar var Bjartur Aðalbjörnsson mættur inn í teyg. Hann náði þó ekki til boltans því hafsentar KH voru með á nótunum og skölluðu boltann í horn. Það var svo Reece Richie sem tók hornið og Helgi Már Jónsson náði að skalla að marki en þar stóð Gunnlaugur Bjarnar Baldursson sem náði einnig að setja höfuðið í boltann. Boltinn straukst við varnarmann en breytti þó ekki um stefnu og endaði í netinu. Einherjamenn voru þar menn komnir yfir, 1-0.

Liðin héldu áfram að berjast og virtist leikurinn mjög jafn. Það var svo á 13. mínútu sem heimamenn fengu fyrstu aukaspyrnuna á hættulegum stað. Þá var brotið á Ryan McCann nokkrum metum fyrir utan teyg. Sigurður Donys Sigurðsson tók spyrnuna sem virtist, frá sjónarhorni áhorfenda, ætla inn. Það mátti þó heyra eitt alsherjar andvarp þegar stuðningsmenn sáu boltann sleppa naumlega framhjá.

Fljótlega fóru KH að láta finna fyrir sér og fóru að halda boltanum betur með tilheyrandi sóknum. Á 16. mínútu komu gestirnir upp vinstri kantinn og náðu fyrirgjöf. Ellert Finnbogi Eiríksson var þar tilbúinn og náði skoti á markið. Björn Halldórsson reyndi að grípa boltann en skotið reyndist of fast og boltinn kastaðist að fjærstönginni þar sem Einherjar reyndu að loka á markið. Einar Óli Þorvarðarson var þó fljótur af stað og náði að pota boltanum yfir línuna. Þar með voru KH fljótir að svara og staðan aftur orðin jöfn, 1-1.

Einherjamenn virtust slegnir og KH hélt áfram að sækja. Á 19. mínútu sóttu KH aftur upp vinstri kantinn og reyndu háa stungusendingu yfir Daníel. Hann náði þó naumlega að hreinsa boltann en þar var Sveinn Ingi Einarsson á réttum stað og reyndi viðstöðulaust skot. Skotið var fast en reyndist of hátt og dæmd var markspyrna.

Áfram hélt hörð barátta á miðjunni og Viðar Örn Hafsteinsson reif upp fyrsta gula spjaldið á 22. mínútu þegar Kristófer Þorgrímsson tæklaði Símon Svavarsson full ólöglega.

Það var svo á 25. mínútu þegar heimamenn urðu skelkaðir en þá reyndu KH háa sendingu inn í teyg og Ryan McCann náði til hans. Viðar Örn sá þó boltann fara í höndina á honum og dæmdi víti. Daði Már Steinsson fór á punktinn og tók ágætt víti neðarlega til vinstri. Reynsluboltinn Björn Halldórsson var þó fljótur að hugsa og varði vítið tígulega.

Þetta virtist gefa heimamönnum aukna von en hægði þó ekkert á gestunum því tveimur mínútum síðar náði Einar Óli Þorvarðarson að brjótast í gegn um vörn Einherja. Björn Halldórsson kom út úr markinu á móti honum og reyndi hann þá að "chippa" boltanum. Skotið var þó örlítið of fast og fór af slánni og í útspark. Einherjamenn gríðarlega heppnir að hafa ekki lennt undir á þessum tímapunkti.

Vopnfirðingarnir náðu loksins að láta reyna á Steinar Loga Sigþórsson þegar Daníel Smári Magnússon tók á sprettinn frá hægri kantinum. Hann réðst á vítateygsbogann og þóttist skjóta en potaði honum áfram. Hann náði svo fínu skoti með vinstri en Steinar Logi varði það.

Áhorfendur voru að venju hressir og létu heyra í sér. Það dróg þá til tíðinda á 32. mínútu þegar Sölvi Flosason vandaði leikmönnum kveðjurnar en þar var Magnús Þór Róbertsson réttur maður á réttum stað og stöðvaði Sölva með hnyttnu mótsvari. Frábær vörn hjá Magga, sérstaklega þar sem hann er vanur því að spila að einvörðungu sókn.

Á 34. mínútu stingur Sigurður Donys boltanum upp í horn þar sem Reece Richie er enn og aftur búinn að taka hlaup utan á hann. Reece nær að gefa boltann fyrir en hún er varin í horn. Hornið var tekið stutt eins og heimamönn prófuðu nokkrum sinnum í leiknum. Í þetta skiptið misstu þeir þó boltann en voru fljótir að ná honum aftur. Þar slapp Gunnlaugur Bjarnar upp í vinstra hornið og reyndi fyrirgjöf. Gjöfin var slæm en ef við flokkum hana sem skot þá mætti segja það gott þar sem að boltinn hafnaði í slánni en endaði svo yfir endamörkum.

Eftir þetta jafnaðist leikurinn enn frekar og lítið var um hættuleg færi. Leikurinn varð örlítið grófari og menn urðu önugir. Blóðheitustu leikmenn Einherja voru við sama heygarðshornið og breimuðu eins og óðar læður. Pirringurinn var ef til vill í hámarki þegar Daníel Smári Magnússon var ósáttur við dóm Viðars og henti boltanum í bræðingi í leikmann KH. Þetta gerðist þó í lok fyrri hálfleiks og eftir knús og kel í hálfleik voru leikmennirnir aftur til í slaginn.

Einherjamenn mættu mikið ákveðnari á völlinn í seinni hálfleik og voru fljótir að koma sér í færi. Á 47. mínútu átti Bjartur Aðalbjörnsson flotta fyrirgjöf eftir gott samspil við Sigurð Donys Sigurðsson. Gunnlaugur Bjarnar Baldursson var tilbúinn inn í teyg og reyndi skutluskalla en Steinar Logi ver.

Á 50. mínútu tekur Steinar Logi útspark fyrir KH og Sigurður Donys fer upp í skallaeinvígi og vinnur það vel. Heimamenn byrja sókn en Viðar Örn Hafsteinsson stoppar leikinn þar sem að leikmaðurinn liggur eftir einvígið gegn Sigurði Donys. Einhverra hluta vegna heldur hann um höfuðið þó svo engin snerting hafi verið. Ef til vill aðferðafræði sem má læra af EM. KH eru þó herramenn og gefa heimamönnum boltann um leið. Tveir áhorfendur klöppuðu enda er "fair play" ekki algengasta sjónin í þriðju deildinni.

Á þessum tímapunkti ákvað Þór Hinriksson að breyta leikskipulagi KH og skipaði þeim að spila 3-4-3 leikkerfi. Þetta flæktist eitthvað fyrir fyrirliðanum, Alexander Lúðvíkssyni, því næstu mínúturnar var hann alltaf að kalla á læriföður sinn og spyrja hann hvernig ætti að stilla upp.

Það sem var merkilegt við 51. mínútu var það að hinn bráðefnilegi varnarmaður, Kristófer Einarsson, brá út af vananum og plataði Einar Óla Þorvarðarson upp úr skónum. Kristófer er oftast sagður no-nonsense leikmaður en þar sýndi hann hvers hann er megnugur. Hann átti raunar eftir að gera þetta tvisvar aftur í leiknum.

Á 55. mínútu áttu heimamenn flotta sókn en þá voru Sigurður Donys og Bjartur Aðalbjörns búnir að skipta um kant, eins og oft áður. Þá náði Bjartur að stinga boltanum upp í horn á Reece Richie sem sendi boltann inn í teyg á Helga Má Jónsson. Helgi renndi boltanum þá á fjærstöngina til Ryan McCann en hann rennur í skotinu og boltinn fer yfir. Flott sókn engu að síður.

Á þessum tímapunkti varð leikurinn aftur frekar grófur og bæði lið orðin óþreyjufull. Einherji uppskar aukaspyrnu á hættulegum stað en Sigurður Donys skaut boltanum hátt yfir markið. Mínútu síðar á 58. mínútu er brotið á Bjarti Aðalbjörns í vinstra horninu en heimamenn ná ekki að ógna úr aukaspyrnunni. KH gerir þá skiptingu þar sem Albert Þórir Sigurðsson fer útaf fyrir Egil Einarsson.

Á 60. mínútu gera gestirnir þá aðra skiptingu þar sem að Fáskrúðsfirðingurinn Daði Már Steinsson fer útaf fyrir Björn Inga Árnason. Gaman að sjá þjálfarann geðþekka, Þór Hinriksson, slá Daða á rassinn eftir fínan leik. Þetta er frægt verðlaunakerfi sem hefur reynst fótboltaþjóðum við Miðjarðarhafið vel. Aldrei að vita nema KH komist langt á þessu.

63. mínúta. Viðar Örn Hafsteinsson er að dæma á lítið af brotum og leikurinn verður grófari með hverri mínútu. Hann reynir að grípa aftur í taumana og spjaldar Vincent Robert Ribo fyrir seina tæklingu. Helgi Már Jónsson fær að taka aukaspyrnuna og minnir hún mjög á spyrnu hans sem hafnaði í stönginni í seinasta leik. Þessi fer þó rétt framhjá.

Á 65. mínútu kemur þó upp annað atvik sem fær aðstandendur til að urra en þá er Gunnlaugur Bjarnar með boltann þegar Brynjar Hafþórsson kemur af krafti og sparkar hann niður. Boltinn berst á Sigurð Donys en Brynjar sparkar hann líka niður og nær boltanum. Viðar Örn sér ekkert að þessu og lætur leikinn halda áfram. KH menn eru klókir og sækja hratt á meðan heimamenn mótmæla dómaranum. Þeir ná skoti á markið en Björn Halldórsson ver það. Einherjamenn heppnir þar sem að miðjan var mjög lengi að skila sér í vörn.

70. mínúta. Leikurinn enn mjög grófur að svo virðist sem allir áhorfendur séu komnir með dómararéttindi.

Á 71. mínútu fá Einherjamenn aukaspyrnu og Kristófer Þorgrímsson fær gula spjaldið. Sigurður Donys tekur aukaspyrnuna en Kristófer nær ekki almennilega til boltans og hættan fjarar út. Kristófer Þorgrímsson var svo tekinn útaf fyrir Emil Jarl Kristjánsson.

Mínútu síðar fer Bjartur í 50/50 tæklingu þar sem báðir leikmenn liggja eftir en báðir hrista meiðslin af sér. Stuttu síðar reynir Símon Svavars að koma boltanum til vinstri en nær með því að negla í bakið á dómaranum.

Á 75. mínútu fær Einherji aukaspyrnu við endamörk vallarins. David Hannah og Kristófer Einars koma báðir fram áður en Sigurður Donys tekur spyrnuna fyrir markið. KH nær þó að hreinsa en Sigurður Donys nær fær boltann og skýtur framhjá.

Mínútu síðar nær Helgi Már að þröngva sér í gegn um vörn KH, reynir að setja boltann fyrir markið en varnarmaður kemst inn í sendinguna. Allir heimta að Viðar Örn dæmi hendi en hann neitar.

Það var svo á 77. mínútu sem fyrrverandi Einherjamaðurinn, Hallgrímur Dan Hallgrímsson, kom inn á völlinn. Að sjálfsögðu voru fagnaðarlætin mikil og þá sérstaklega vegna þess að heimamenn heimtuðu að hann myndi skora sjálfsmark. Vincent Robert Ribo fór útaf og greinilegt var að KH væru búnir að gefast upp á því að hafa aðeins þrjá í vörn.

Á 78. mínútu var Reece Richie með boltann en var þá jarðaður af Emil Karli Kristjánssyni og gaf Viðar Örn honum gult spjald fyrir gjörninginn.

Mínútu síðar kjötaði Helgi Már Jónsson sig í gegn um vörnina og kom boltanum á markið. Skotið var varið út í teyg og þar tók Gunnlaugur Bjarnar sprettinn í boltann. Hann reyndi að renna sér í skotið en náði ekki boltanum og braut á varnarmanni. Þarna voru heimamenn ekki langt frá því að skora.

Á 81. mínútu fær Björn Ingi Árnason boltann á hægri kantinum og tekur á rás. Hann nær þá að hlaupa upp allan kantinn og setur boltann fyrir. Björn Halldórsson var þó ekki í miklum vandræðum með það að grípa boltann. Einherjamenn flýta sér í sókn og koma sér í hættulega stöðu þegar Bjartur er í þann mund að sleppa í gegn en álítur varnamennina sækja of hratt að sér. Hann reynir þá skot í vinstra horni teygsins en skotið fer yfir.

Á 83. mínútu eru KH ennþá að spila fast og Einherjamenn sækja á fullu. Bjarki Björnsson, sem var nýkominn inn á fyrir Helga Má Jónsson, fær boltann og tekur á rás á kantinum. Hann kemst þó ekki langt því að Brynjar Hafþórsson er fljótur að negla hann niður í grasið. Viðar Örn leyfir honum að sjá flotta gula spjaldið sitt.

Mínútu síðar er Reece Richie kominn með boltann fyrir utan teyg og reynir langskot. Vopnfirðingurinn, Hallgrímur Dan, lokar á skotið og fær þar gott högg. Spekúlantar í stúkunni velta því fyrir sér hvort það sjái á honum eftir höggið en Steingrímur Róbert Árnason telur hann ekki geta versnað. Eftir atvikið nýta KH fimmtu og seinustu skiptinguna sína en þá kemur Ásmundur Þór Sverrisson inn á fyrir Ingólf Pál Ingólfsson.

Það er svo á 86. mínútu þegar heimamenn eru enn einu sinni komnir í vænlega stöðu. Þá gerir Daníel Smári Magnússon vel og er kominn upp að endamörkum KH. Hann reynir að renna boltanum út í teyg en KH hreinsa í horn. Einherjamenn taka hornið stutt og Reece Richie reynir annað langskot en það er varið í þetta skiptið.

88. mínúta. KH eru búnir að pakka í vörn og Einherjamenn þjarma að þeim. Hornspyrna er tekin og David Hannah skallar boltann að marki. Boltinn fer þó í hausinn á Hallgrími Dan og lendir ofan á þaknetinu. Einherjamenn taka hornið stutt og þá hefst stórskotahríð þar sem þrjú skot hafna í varnarmúr KH. Seinasta skotið fer á markið en það er gripið af Steinari Loga Sigþórssyni.

Mínútu síðar gera Einherjamenn skiptingu og er það ofurbomban, Daði Petersson, sem kemur inná fyrir Gunnlaug Bjarnar Baldursson.

Á 90. mínútu ætla KH að drífa sig í sókn og stela einu marki. Þar er kempan Hallgrímur Dan kominn upp kantinn og reynir fyrirgjöf með vinstri. Hún fer þó ekki eins og hann hafði ætlað og Einherji fær markspyrnu.

Á 91. mínútu potar Sigurður Donys boltanum upp í horn á Daníel Smára og hleypur svo sjálfur inn í teyg. Daníel sendir flottan bolta fyrir markið á Sigurð Donys sem nær ekki að skalla boltann en reynir að taka "hönd guðs", eins og Maradonna gerði frægt um árið. Viðar Örn sá það auðveldlega eins og flestir aðrir og gaf honum gult spjald.

Seinasta sóknin kom svo á 92. mínútu þegar Bjartur Aðalbjörns á flotta stungu inn fyrir vörnina á Bjarka Björnsson en línuvörðurinn flaggar og Viðar Örn flautar. Með því var leik fljótlega lokið og úrslitin augljós. 1-1.

Þar með eru KH komnir í 3. sæti og Einherji í því 5.

        FÉLAG       L        U         J            T              MÖRK                   STIG

1    Huginn      5         4          1            0              20  -    8                                13

2   Leiknir F.   5         3          1            1              12  -    5                                10

3   KH                6         2          2            2                 8  -  14                                8

4   Augnablik 5         2          1            2              19  -  14                7

5   Einherji      5         2          1            2              11  -    9                                7

6   Álftanes    5         1          2            2              10  -  11                5

7   Björninn    4         1          0            3                 3  -  11                                3

8   Skínandi    5         1          0            4                 7  -  18                                3

Flettingar í dag: 66
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 317775
Samtals gestir: 75538
Tölur uppfærðar: 14.10.2019 07:45:13