Færslur: 2009 Júlí

30.07.2009 22:55

Annað tapið í röð á Frímerkinu

Það var sárt þegar dómarinn flautaði til leiksloka á Vopnafjarðarvelli í skítaveðri í kvöld. Einherji tapaði 3-1 fyrir Völsungi. Donni skoraði mark Einherja úr víti

Byrjunarlið:
                  Tomislav
Smári   Bjarni    Davíð   ívar
            Helgi      Símon
Donni         Gulli         Daði
                 Matti

Bekkur: Kristófer, Bjartur, Elmar, Bjarki (komu allir inn á fyrir, Gulla, Matta, Donna og Símon)

Ekki leit það vel út hjá Einherjamönnum í upphafi leiks í kvöld. Fyrstu mínúturnar voru einstefna og Völsungur lág á heimamönnum. Þeir sköpuðu sér þó ekki mörg færi en áttu hættuleg skot eftir jörðinni sem Tomislav átti í erfiðleikum með á rennblautum vellinum. En þegar leið á fór Einherji að komast meira inn í leikinn og sýna eitthvað fram á við. Undir lok hálfleiksins fékk Donni boltann á vinstri kantinum. Sólaði tvo Völsunga glæsilega, slapp inn í vítateig þar sem hann var felldur og vítaspyrna dæmd. Hann steig svo sjálfur á punktinn og skoraði örugglega. 1-0. Lítið gerðist eftir það nema að Donni fékk gott færi nokkrum mínútum seinna en skaut framhjá.

Í seinni hálfleik hélt leikur Einherjamanna svo áfram að batna. Völsungar komust lítið áleiðis í gegnum sterka vörn Einherja en aftur á móti voru heimamenn ekki að skapa sér mikið. En þegar hálfleikurinn er ca. hálfnaður tekur dómarinn stóra ákvörðun. Þá fékk Davíð sitt annað gula spjald og þar með rautt. Undirritaður sá ekki atvikið og ætlar ekkert að fullyrða, en það voru skiptar skoðanir um atvikið.  Eftir þetta var allt loft farið úr Einherja og Völsungur skoraði með skalla u.þ.b. mínútu síðar. 1-1. Svo missti Smári sóknarmann Völsungs klaufalega framhjá sér. Sóknarmaðurinn skaut, Tomislav varði, en það var annar sóknarmaður Völsungs sem var mættur til að klára. 2-1. Síðan kom 3. markið. Það var svipað að því leiti að haltrandi Tomislav náði ekki að halda eða slá frá blautan boltann og það var Völsungsmaður sem var á tánum og náði að skora. 3-1 lokatölur

Maður veit eiginlega ekki hvað á að segja eftir þennan leik. Erfitt er að kenna einhverjum um. Þó dómarinn hafi verið slakur er staðreyndin sú að Völsungur voru bara betri og unnu verðskuldað. Engu að síður sárt því þetta hefði vel geta dottið okkar megin. Maður setur samt spurningamerki við að það sé Seyðfirðingur settur á þennan leik.

En þetta er búið og gert og menn verða að horfa á næsta leik, og leiki. Oft var þörf á karakter hjá liðinu og stuðningi frá okkur áhorfendum, en nú er nauðsyn! Næst er erfiður útileikur á móti Draupni. Þá verða Davíð þjálfari og Donni fyrirliði í banni svo það þurfa fleiri að stíga upp og drífa liðið áfram. Ég efast ekki um að það verði gert, enda hafa menn nægan tíma til að undirbúa sig fyrir þann leik sem er eftir 9 daga.

Myndir sem Jósep H Jósepsson tók á leiknum og fær hann séstakar þakkir fyrir:Áfram Einherji!

-KG

28.07.2009 12:03

Frí á æfingum

Við höfum ákveðið að gefa frí á æfingum yngri flokka 29. og 30. júlí, æfingar hefjast svo aftur  þriðjudaginn 4.ágúst.

Einherji

27.07.2009 20:29

Síðasta umferðin hefst - Einherji vs. Völsungur

Þá er komið að síðustu umferð riðlakeppninnar. Hjá Einherja hefst hún með þriðja leiknum á móti Völsungi. Sá leikur verður á fimmtudaginn nk. kl 20:00.


Skorar Bjarni aftur?

Í fyrsta leiknum tapaði Einherji án þess að það þurfi að hafa fleiri orð um það. En í síðasta leik voru Einherjamenn grátlega nálægt sigrinum, þegar Völsungur jafnaði, 1-1, á 95. mínútu. Það var virkilega svekkjandi og nú er kominn tími til að ganga alla leið og vera fyrsta liðið til að sigra Völsung!


Það var hart barist í síðasta leik

Af Einherja er það að frétta að Gísli Freyr verður í banni sem er mikill missir, þar að auki er Arnar Geir enn í fríi, eftir því sem undirritaður best veit. En fótbolti er liðsíþrótt svo það kemur bara maður í manns stað. Vonandi verða samt ekki fleiri sem detta út þegar líður á vikuna.

Völsungur féll í 3. deild síðasta sumar og er óhætt að segja að það er mjög líklegt að þeir fari beint upp aftur. Þeir eru með sterkt lið, þar sem uppistaðan er ungir heimamenn. Í raun eins uppbygging og hjá Einherjaliðinu. Og hverju skilar það sér hjá þessum liðum? 1. og 2. sætið þegar þriðjungur mótsins er búinn.

Það voru margir sem keyptu sér gamlar Einherjatreyjur, peysur og galla á Vopnafjarðardögunum. Þessi toppslagur er góður vettvangur til að mæta í nýju/gömlu flíkunum og skapa stemmingu sem aldrei fyrr.

Áfram Einherji!

-KG

23.07.2009 17:54

Tap á heimavelli

Einherji tapaði 1-0 gegn Leikni á þriðjudagskvöldið síðasliðið. Síðuritari var ekki á leiknum og hefur því lítið um hann að segja. Nema að það er ömurlegt að tapa, sérstaklega á heimavelli.

Það þýðir ekki að væla. Næst er Völsungur heima eftir viku. Menn hljóta að mæta dýrvitlausir í þann leik

Leikskýrslan er hér: http://www.ksi.is/mot/motalisti/leikskyrsla/?Leikur=209359

19.07.2009 21:24

Loksins heimaleikur

Fyrsti heimaleikur Einherja í næstum 3 vikur verður á Þriðjudaginn nk. klukkan 20:00. Þá fáum við Leikni F. í heimsókn. Leiknir situr á botni riðilsins ásamt Draupni, einungis með 4 stig. Fyrirfram ætti því Einherji að vera sterkari aðilinn - en það er alls ekki á vísan að róa í þessum riðli! Fyrsti leikur liðanna í sumar fór 3-3 og Leiknismenn hafa látið t.d. Dalvík/Reyni og Völsung hafa fyrir hlutunum. En síðasti leikur Leiknis var einmitt gegn Völsungi og fór hann 1-0 fyrir Völsung.

Það var frábær stemming hjá stuðningsmönnum Einherja á Seyðisfirði en nú erum við á heimvelli svo það má síður en svo slaka á! Vonandi mæta sem flestir á þennan leik, góð upphitun fyrir Vopnafjarðardagana.

Þar sem undirritaður kemst ekki á leikinn væri frábært ef einhver myndi vilja taka að sér að skrifa umfjöllun og/eða taka myndir á leiknum. Áhugasamir geta haft samband með því að senda tölvupóst á conradgudjonsson@gmail.com


-KG

16.07.2009 16:08

Nikulásarmót

Nikulásarmótið á Ólafsfirði fer fram helgina 17.-19. júlí, ekki færri en 5 lið með 40 keppendum munu fara á mótið frá Einherja þessum keppendum fylgja svo foreldrar og systkini þannig að Vopnfirðingar verða fjölmargir á Ólafsfirði um helgina. 

16.07.2009 15:18

Knattspyrnuskóli

Knattspyrnuskóli

Einherji auglýsir knattspyrnuskóla dagana 20. til  24. júlí, frá kl 10:00- 12.00 alla dagana. Skólinn er fyrir stúlkur og drengi í  3. 4. og 5. flokki.Leiðbeinendur eru Davíð  Ólafsson og Sigurður D Sigurðsson. Nánari upplýsingar og skráning í síma 898-7944.

Einherji    

16.07.2009 00:40

Ævintýralegur sigur í lélegum leik

Það má segja ýmislegt um leikinn í gærkvöldi og glæsilegan sigur Einherja. Heppni, viðbjóðsleg heppni, meistarheppni, seigla, karakter, dramatík eru nokkuð orð sem gætu lýst því. Það eina sem skiptir máli er að Einherji kom heim með 3 stig og strákarnir sáu til þess að enginn Einherjamaður sem mætti á völlinn sá eftir tíma og peningi sem fór þessa ferð.


Mynd: Jósep H Jósepsson

Byrjunarlið:
                       Tomislav
Arnar        Davíð    Bjarni      Daníel
                        Helgi
                  Símon   Gísli
Daði                                     Donni
                      Marteinn

Bekkur: Bjarki, Raggi, Ívar, Smári og Elmar

En það voru fjölmargir Vopnfirðingar sem mættu á Seyðisfjarðarvöll til að sjá okkar menn spila gegn  Huginn, sem bætti við sig sjö leikmönnum við opnun félagsskiptagluggans. Eins og svo oft áður hófst leikurinn með frekar rólegu miðjumoði en svo náðu Huginsmenn tökum á leiknum og sköpuðu sér 2 - 3 færi. En á 25. mínútu átti Tomislav útspark sem fór beint á kollinn á Matta. Hann flikkaði boltanum inn fyrir á Donna, sem stakk varnarmann Hugins af og bombaði boltanum í þaknetið 1-0! Fram að hálfleik voru Huginsmenn með betri tök á leiknum en þó sýndu Einherjar oft fína takta. 1-0 í hálfleik.


Marki Donna fagnað                                                                                    Mynd: Jósep H Jósepsson

Fyrri hálfeikurinn hjá Einherja var ekkert spes, en þó skömminni skárri en seinni hálfleikur. Huginn sótti nær látlaust allan seinni hálfleikinn. En sköpuðu sé þó lítið af alvöru marktækifærum. Fengu reyndar nokkar hornspyrnur sem Einherji átti í vandræðum með. Pressa Hugins endaði að sjálfsögðu með því að þeir skoruðu, en ekki var markið af dýrari gerðinni. Kantmaður þeirra var að verða kominn að endalínu þegar hann skaut/sendi boltann inn í teig þar sem Tomislav reyndi að grípa boltann. Það tókst ekki betur en svo að hann misst boltann í fæturnar á Helga. Helgi náði ekki valdi á boltanum og sóknarmaður Hugins potaði boltanum inn. 1-1 á 57. mínútu. Eftir þetta hélt pressa Hugins áfram. Síðustu mínúturnar voru langar . Það virtist sem margir af Vopnfirðingunum sem voru á vellinum væru að bíða eftir lokaflautinu enda virtust menn getað prísað sig nokkuð sæla með jafntefli úr þessum leik. En þá var brotið á Donni við hornfánann hægra meginn. Donni tók góða aukaspyrnu sem sveif yfir alla í teignum. Nema Bjarna, sem lúrði á fjarstöng og skallaði boltann í bláhornið. Það væri athyglisvert ef það hefði náðst upptaka af fagnaðarlátunum sem brutust út eftir þetta. Sætara getur það ekki verið. Eftir þetta tók Huginn miðjuna og dómarinn, sem átti fínan leik í gær (það er í lagi að minnast á dómarann þótt hann hafi ekki verið ömurlegur), flautaði leikinn af. Lokatölur 1-2

Bjarni hafði ástæðu til að brosa                                                                   Mynd: Jósep H Jósepsson

Það er frábært að Einherji hafi unnið þennan leik með þeim fótbolta sem liðið var að spila. Hann var ekki góður. Undirrituðum fannst mest muna um það að miðjumennirnir þrír spiluðu allir undir getu og að menn voru að sparka boltanum fullmikið frá sér með löngum háum sendingum. Það er erfitt að benda á einhverja sem voru að spila vel. En þó það sé ekki nema fyrir sigurmarkið og að hafa oft lokað í vörninni að Bjarni hafi verið að spila best. Það verður líka að minnast á þátt Donna sem skoraði og lagði upp. En sigur er sigur - eru það ekki bara góð lið sem komast upp með að spila illa og sigra?

Nú eru strákarnir búnir að hrista Huginn af sér í bili. Sem er gott, því Huginsliðið virkaði sterkara í gær heldur en í fyrri viðureignum þessara liða. En Dalvíkingar eru ennþá einungis tveimur stigum á eftir svo það má ekkert slaka á.

Næsti leikur er gegn Leikni þriðjudaginn nk. hér heima. Vonandi koma sem flestir á fyrsta heimaleikinn í næstum 3 vikur. Undirritaður étur hattinn sinn ef Einherji spilar ekki betri bolta í þeim leik. Það er allavega mannskapurinn til þess!

--------------------------------------------------------
Donni fyrirliði skrifaði smávegis sem hann vildi að ég myndi birta hér:
Ég vil þakka öllu fólki á Vopnafirði fyrir frábæran stuðning, við eigum lang besta stuðningsmannalið á Íslandi:) En núna erum við búnir að spila 2 leiki og þeir voru ekki góðir hjá okkur en fjögur stig með meistarheppni. En við lofum núna að rífa okkur upp úr þessari lægð og klára riðilinn með stæl. Við ætlum að fara í hvern einasta leik á 120. Það sem er að skila þessu hjá okkur í sumar, er að við erum bestu vinir og erum eins og stór fjölskylda. Við erum til að hjálpa hverjum öðrum á æfingum og í leikjum og svo með ykkur á bakvið okkur er bara snilld:) Takk fyrir allt og vonandi verður troðið á leiknum á Þriðjudaginn.

kv. Fyrirliðinn

--------------------------------------------------------

Áfram Einherji!

-KG

14.07.2009 12:32

Einherji - Huginn, partur 3 af 4

Huginn tekur á móti Einherja á Seyðisfjarðarvelli miðvikudaginn 15. júlí(á morgun) klukkan 20:00. Þetta er þriðji leikur liðanna í sumar en hingað til hefur okkar mönnum gengið mjög vel og unnið tvisvar með þremur mörkum - 3-0 í bikarnum í 5-2 í deildinni.


Skorar Raggi?

Huginn hefur verið í miðjumoði í riðlinum og ekki náð sér almennilega á strik. Lið þeirra er samt sterkt og skv. vefsíðu þeirra (huginn.org) eru þrír Danir að bætast við í hópinn. Fyrir eru fjórir útlendingar og finnst undirrituðum það illskiljanlegt að vera með 7 útlendinga í 3. deildinni á Íslandi árið 2009. En það skiptir litlu. Það verða 22 leikmenn á vellinum sem allir vilja vinna, hvernig sem vegabrefíð þeirra lítur út

Síðasti leikur Einherja fór 1-1 á móti Dalvík/Reyni. Strákarnir náðu sér ekki almennilega á strik þar en vonandi gengur betur á Seyðisfirði svo liðið komist í 18 stig. Þess má geta að Smári er kominn á fullt skrið aftur eftir augnaðgerð, Elmar kominn heim úr fríi en hinsvegar er óvíst hvort Gulli verði tilbúinn

Það tekur ekki nema 1 og 1/2 tíma að keyra á Seyðisfjörð og vonandi sjá sem flestir sér fært að gera það. Seyðisfjarðarvöllur er sterkur heimavöllur svo okkar mönnum mun ekki veita af stuðningi!

Áfram Einherji!

-KG

12.07.2009 23:38

Myndir úr Einherji-Draupnir

Það eru komnar inn myndir úr leik Einherja og Draupnis 2. júlí. Þær má sjá hér:

http://einherji.123.is/album/default.aspx?aid=152769

Takið sérstaklega eftir hárgreiðslu Símons og þegar boltinn er að fara í markið beint úr hornspyrnu

-KG

07.07.2009 19:59

Dalvík/Reynir - Einherji

Stigin þrjú verða ekki gefins á Dalvíkurvelli á fimmtudagskvöldið nk. þegar Dalvík/Reynir tekur á móti Einherja klukkan 20. Síðasti var leikur var allavega þannig, þegar Einherji vann 3-2 eftir að hafa lent undir 1-2. Stemmingin á þeim leik var frábær og er ekki við öðru að búast á Dalvík.

D/R fór ekki vel af stað í vor en hefur náð sér betur á strik núna og unnið 3 leiki í röð. Liðið þeirra er hörkugott og hafa þeir a.m.k. þrjá leikmenn sem hafa spilað í efstu deild. Það verður líka að minnast á stuðningssveitina, Brúinn, sem Vopnfirðingar ættu að muna eftir hérna fyrir mánuði síðan. Það lið er líka hörkugott.

Ofurmennin í Einherja eru ekki meidd svo ég viti, nema að það er óvíst með Gulla sem er að jafna sig eftir að hafa brákað rifbein í leiknum heima gegn Huginn. Það verður að sjálfsögðu stefnt á sigur en strákunum mun ekki veita af stuðningi, til að láta það gerast. Eins og áður segir er D/R með gott stuðningsmannafélag og því ennþá meiri ástæða fyrir fólk að taka stemminguna af Frímerkinu með til Dalvíkur.

Fyrir þá sem hafa á áhuga á að fara þá verða sætaferðir á leikinn og væri frábært ef það verður hægt að fylla eina rútu, helst tvær! Áhugasamir hafi samband við Einar Björn í síma: 898-7944

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Fyrst byrjað er að tala um stuðningsmannafélög og rútferð á þennan leik, er gaman að birta nokkra stuðningssöngva sem voru samdir eða útfærðir fyrir Einherja. Það eru ungir hugmyndaríkir piltar sem eiga mesta heiðurinn af því.  Þetta er alls ekki eitthvað sem er endanlegt og má ekki breyta. Í raun er þetta bara uppkast. Því má fólk alls ekki hika við að koma með ábendingar eða nýja texta. Best er ef fólk skrifar komment eða sendi e-mail á conradgudjonsson@gmail.com

(Anderson-son son)
Gísli Freyr, Gísli Freyr, hann er harðari en leir
Gísli Freyr, Gísli Freyr,hann er okkar bjarta von
Út á völl, skot og mark sjáið strákinn hann er klass
og hann miðjuna á, hann er okkar Fabregas!

Arnar Geir útgáfa: og hann vörnina á

Davíð Ó Ó Ó, hann er sonur Óla Jó
Davíð Ó Ó Ó, hann er betri en Óli Jó

(Höfuð herðar hné og tær)
Davíð Örvar Ólafsson, Ólafsson
Davíð Örvar Ólafsson, Ólafsson
Taktu nú boltann og negld´onum inn.
Davíð Örvar Ólafsson, Ólafsson
Líka hægt að nota Bjarni Óskar Þorsteinsson

(Vertu til er vorið kallar á þig)
Vertu til er Davíð kallar á þig.
Vertu til að reima skó á fót.
Komd´inná því að Krúið vill nú sjá þig
skora mark og læsa vörninni x2  HEY!

(Torres lagið)
Kom sá og sigraði Donni, Donni
Eftir 19 ár í boltanum, Donni, Donni
Eftir 19 ára bið að leiða fram meistaralið
Fyrirliðinn, Donni númer eitt

(Volare)
Einherji, ooooh
Einherji, ooohhhhhhh
Við vinnum þennan leik
hinir eiga ekki breik

(London bridge is falling down)
Daði Peters skorar mörk, skorar mörk, skorar mörk
Daði Peters skorar mörk'
og vinnur leikinn

(Hands up)
Símon, Símon Svavars, syngjum jaja, jibbý jibbý, jaja, jibbý jibbý
Helgi, Helgi, Helgi
Ívar, Ívar, Ívar
o.fl....

(Daníel og Rut)
Ég vil líkjast Daníel og vinna þenna leik
Ég vil líkjast Daníel og vinna þenna leik
Hann berst til síðasta blóðdropa
og er fokkin góður í fótbolta
Ég vil líkjast Daníel og vinna þenna leik

Áfram Einherji, Vopnafjarðarstoltið!

(Aðkomulið) are shit, that´s a fact
(Aðkomulið) are shit, that´s a fact

Við erum orange og bláir, (klapp x4)
Já allir sem einn.
Því að við erum bestir, já allir sem einn!

Ó Einherji x2, það erum við x2
Okkur er öllum drullusama um önnur lið.
Hataðir x2, elskaðir x2!.
Við erum líka eina sanna Stórveldið.

(Volare)
Óóóóóóóó Donni óhó
Óóóóóóóó Donni óhóóó
Hann kom frá Sandgerði
Og hrellir markverði.

Þú ert langbestur
Smári Lárusson!
leikmanna mestur
Smári Lárusson
og ert Einherji!
Orange ooooog blár í gegn.

(You are my sunshine )
Þú ert minn Gulli!
Minn eini Gulli!
Þú ert langbestur, það vitum við
Þú ert sá striker, sem allir vilja
og þú bombar boltanum inn

Þú ert minn Bjarni
Minn eini Bjarni    
Þú ert langbestur, það vitum við    
Þú ert sá sweeper, sem allir vilja
og þú bombar boltanum burt!

Við syngjum Elmarr Þór.
Við syngjum Elmar Þór.
Einn af fjórum fimm,
hann er kóngurinn!
Við syngjum Elmar Þór!

Við hötum Leikni! (2xklapp) (Ó Einherji!)
Við hötum Huginl! (2xklapp) ) (Ó Einherji!)
Það er sanna Stórveldið! (2xklapp)
Standið upp, (2xklapp)
og klappið með, (2xklapp)
ef þið elskið stórveldið! (2xklapp)
olei, olei....

-KG

02.07.2009 23:21

Skrautleg mörk í stórsigri

Á fimmtudagskvöldið sl. mættust Einherji og Draupnir í rjómablíðu á Vopnafjarðarvelli. Í stuttu máli átti Einherji leikinn og vann 5-0. Mörk: Davíð, Daníel, Marteinn, Donys og Ragnar

En annars fór leikurinn ekki með flugeldasýningu og tempóið eins lágt og hugsast getur, fyrsta hálftíman. En það skánaði aðeins þegar Davíð gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu! Það leið ekki langur tími þangað til að Daníel "lét vaða af 70 metra færi", eins og segir á fotbolti.net og skoraði. Reyndar leit þetta pínulítið út fyrir að vera sending og markvörðurinn kiksaði... en það er allt aukaatriði, glæsilegt mark.

Í seinni hálfleik stjórnaði Einherji leiknum áfram, og uppskar 3 mörk. Reyndar áttu Draunpismenn 2-3 hættulegar sóknir og voru mjög nálægt því að skora. Á 51. mínútu slapp Matti einn í gegn og afgreiddi færið sitt vel. Næst skoraði Donni, stöngin inn. Síðast en alls ekki síst kom aldurforsetinn, Ragnar Antonsson, inn á og setti boltann laglega yfir markvörðinn.

Flottur sigur hjá strákunum sem eru enn í 2. sæti riðilsins og einungis 3 stigum á eftir Völsungi sem er á toppnum! Mörkin hefðu samt getað orðið mikið, mikið fleiri ef menn hefðu passað sig á rangstöðum! Þær voru svo margar að það gæti verið met. En það skiptir engu þegar leikurinn vannst, menn passa þetta án efa betur í næsta leik. Þessi leikur verður gott veganesti fyrir leikinn gegn Dalvík/Reyni þar sem að sjálfsögðu er stefnt að því að hirða öll 3 stigin! Sá leikur er á fimmtudaginn nk. kl 8 á Dalvíkurvelli. Það væri frábært ef sem flestir Einherjamenn í nágrenninu myndu mæta og veita strákunum stuðning.

Myndir frá leiknum koma síðar

Leikskýrsluna má sjá hér: http://ksi.is/mot/motalisti/leikskyrsla/?Leikur=209354
  • 1
Flettingar í dag: 145
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 137
Gestir í gær: 16
Samtals flettingar: 317991
Samtals gestir: 75564
Tölur uppfærðar: 15.10.2019 15:53:11