Færslur: 2009 Ágúst

31.08.2009 16:33

Síðbúið uppgjör

Einherji lét loksins af því verða, eftir 5 ára pásu, að taka þátt í Íslandsmótinu sumarið 2009. Frumkvæðið kom frá kjarnanum í liðinu, ungir strákar frá Vopnafirði. Það er óhætt að segja að fyrirfram hafi væntingarnar til liðsins verið hófsamar, enda um nær algjörlega reynslulaust lið að ræða. Donni, Arnar, Bjarni, Davíð, Elmar, Ívar, Raggi og Tomislav voru í raun þeir einu sem höfðu í það minnsta einhverja reynslu af meistarflokks bolta og sumir þeirra höfðu lítið eða ekkert spilað síðustu árin! En einhversstaðar verður að byrja.

Byrjunin var hinsvegar ekki glæsileg því í fyrsta leik var farið á Húsavík þar sem boltinn fór sjö sinnum í mark Einherja. En eftir það kom svakalegur kafli hjá Einherja þar sem strákarnir spiluðu  átta leiki í deildinni án þess að tapa. Leikur liðsins einnkenndist af leikgleði og mikilli baráttu sem sannarlega skilaði sér, auk þess spilaði liðið oft á tíðum virkilega flottan fótbolta og skoraði slatta af mörkum. Stemmingin á Vopnafjarðarvelli var frábær í þessum fyrstu leikjum og ber sérstaklega að nefna fyrri heimaleikinn gegn Dalvík/Reyni sem vannst 3-2 eftir að Einherji lenti 1-2 undir.

Það má líka ekki gleyma árangrinum í bikarkeppninni, þar sem Einherji komst í gegnum tvær fyrstu umferðinnar og fór til Keflavíkur í 32-liða úrslitum. Þar voru úrslitin 2-0 fyrir heimamenn en miðað við klassamuninn á liðinum stóðu strákarnirr sig frábærlega og létu sterkt úrvalsdeildarliðið hafa fyrir hlutunum.

Þann 15. júli fór Einherji til Seyðisfjarðar og framdi rán. Í leik þar sem nær enginn í appelsínugulu spilaði vel vann Einherji með síðustu snertingu leiksins. Gífurlega sætt og líklega hápunktur sumarsins. En eftir það lá leiðin niður á við.

Einherji vann ekki stakan leik eftir þetta og tapaði síðustu 4 heimaleikjunum. Það vantaði einhvern kraft sem einkenndi liðið fyrri hlutann, auk þess sem mestöll heppni virtist yfirgefa liðið. En svona er fótboltinn.

Á heildina litið er þetta tímabil alls ekki eitthvað sem menn þurfa að líta á með skömm, þó að endirinn hafi verið slæmur. Í raun getur liðið og aðrir Vopnfirðingar verið stoltir af árangrinum. Hefði einhver sagt við fréttaritara í byrjun sumars að Einherji myndi fá 20 stig og enda í 4. sæti, hefði það hljómað sem góð niðurstaða.

Það er hægt að horfa með bjartsýni til næsta tímabils. Það er erfitt að segja til um hvernig hópurinn verður þá en flestir eru jákvæðir fyrir því að halda áfram með Einherja sem er bara frábært. Það eru ekki bara þeir sem koma frá Vopnafirði sem vilja halda áfram því Tomislav, sem var líklega besti markmaður riðilsins, vill koma aftur, auk þess sem Davíð vill halda áfram að byggja upp liðið. Undirritaður veit ekki með Bjarna, en hann var allavega sáttur með dvölina eftir því sem ég best veit og vonandi kemur hann aftur.

Tölfræði sumarsins:

Leikir, mörk og spjöld í deildinni:
Leikmenn Leikir Mörk Gult Rautt
1 Adam Snær Atlason 1 0 0 0
2 Arnar Geir Magnússon 10 0 4 0
3 Bjarki Björnsson 11 0 1 0
4 Bjarni Óskar Þorsteinsson 11 3 0 0
5 Bjartur Aðalbjörnsson 5 0 0 0
6 Daði Petersson 13 1 2 0
7 Daníel Smári Magnússon 14 1 3 0
8 Davíð Örvar Ólafsson 13 4 2 2
9 Elías Mikael Vagn Siggeirsson 2 0 0 0
10 Elmar Þór Viðarsson 10 0 1 0
11 Gísli Freyr Ragnarsson 12 0 4 0
12 Gunnlaugur Bjarnar Baldursson 12 2 2 0
13 Helgi Már Jónsson 13 2 5 0
14 Ívar Örn Grétarsson 9 0 0 0
15 Kristófer Einarsson 3 0 0 0
16 Marteinn Þór Vigfússon 15 5 2 0
17 Ragnar Antonsson 5 1 0 0
18 Sigurður Donys Sigurðsson 12 9 6 1
19 Símon Svavarsson 15 4 3 0
20 Smári Lárusson 5 0 0 0
21 Tomislav Bengun 13 0 0 1
22 Þorsteinn Ægir Egilsson 4 0 0 0
23 Öystein Magnús Gjerde 1 0 0 0
 
  Samtals á leikmenn:   32 35 4

Lokastaðan í riðlinum:
                             L  U  J T   Mörk              Stig
1 Völsungur 15 11 4 0 54  -  20 34 37
2 Huginn 15 8 3 4 33  -  27 6 27
3 Dalvík/Reynir 15 8 2 5 34  -  22 12 26
4 Einherji 15 5 5 5 33  -  34 -1 20
5 Leiknir F. 15 2 2 11 22  -  37 -15 8
6 Draupnir 15 2 2 11 18  -  54 -36 8

Að lokum vil ég, Konráð Guðjónsson, þakka fyrir mig og um leið þakka öllum sem fylgdust með gangi mála í sumar og studdu Einherja. Sjáumst á Frímerkinu í maí 2010.

Áfram Einherji!

-KG

25.08.2009 15:59

Einherjapeysur.

Erum að fara að panta meira af Einherjapeysunum áhugasamir hafi samband við Einar Björn, ath hækkað verð 3.000 krónur peysan.

25.08.2009 15:54

Æfingafrí

Nú er komið frí frá æfingum hjá öllum flokkum, vetrarstarfið verður auglýst þegar að því kemur.

19.08.2009 23:47

Huginn part 4 - síðasti leikur sumarsins

Á laugardaginn nk. mun Einherji ljúka þáttöku sinni í Íslandsmótinu þetta árið. Þá kemur Huginn í heimsókn á Frímerkið og hefst leikurinn klukkan 14:00. Fjörið hefst samt kl 13:30 með grillveislu í boði HB Granda og Kristjáns bakarí, svo mæti tímanlega!

Þetta verður fjórði leikur þessara liða í sumar og er skemst frá því að segja að Einherji hefur haft hreðjatak á Huginn hingað til. Í fyrsta leiknum, sem var í bikarnum, unnu strákarnir 3-0. Matti, Donni og Daði með mörkin. Síðan 5-2 þar sem Davíð, Matti, Daði og Símon(2 mörk) skoruðu. Loks mættust þessi lið á Seyðisfirði þar sem fór 2-1 í dramatískum leik. Bjarni skoraði með síðustu snertingu leiksins en áður hafði Donni skorað.

Það er samt margt sem bendir til þess að leikurinn á laugardaginn verði virkilega erfiður. Huginn er í baráttu við Dalvík/Reyni um sæti í úrslitakeppni og með sigri tryggja þeir sig áfram. Það er líka öruggt að þeir mæta á fullum krafti í þennan leik einfaldlega af þeirri ástæðu að þeir vilja ekki tapa fyrir okkur í 4. skiptið í röð. Síðast en ekki síst bættu þeir við sig 7 leikmönnum í félagsskiptaglugganum og hafa verið á mjög góðri siglingu upp á síðkastið.

Hjá Einherja hefur leiðin aftur á móti legið niður á við. Höfum misst af sæti í úrslitakeppni og erum nú í 4. sæti. Það er þó árangur sem má vel við una með nýtt og reynslulítið lið og fyrirfram hefðu margir verið sáttir við það. Með sigri á laugardaginn er þó möguleiki á 3. sæti!

Ástandið á hópnum er sæmilegt fyrir utan að það vantar fjóra byrjunarliðsmenn. Daði er í frí og svo eru þrír í banni. Fyrst ber að nefna Arnar Geir, sem hefur átt hægri bakvörðinn í sumar, síðan Donna fyrirliða og síðast en ekki síst Tomislav. Þar af leiðandi vantar markmann og þegar þetta er skrifað er ekki víst hver verður á milli stanganna! En það eru þó líka góðar fréttir því Öystein verður líklega loksins með.

En þó að þessi leikur líti ekki vel út fyrirfram verða samt 11 leikmenn í hvoru liði á laugardaginn og allt getur gerst. Það kemur maður í manns stað og menn hljóta að vilja klára skemmtilegt sumar með sæmd og "feisa" svarsýnann fréttaritara, með því að sigra. Þetta er leikur upp á stoltið.

Vonandi taka svo aðrir Vopnfirðingar sig saman og verða 12. maðurinn

Áfram Einherji!

-KG


18.08.2009 16:48

Einherjapeysur

Nú eru Einherjapeysurnar loksins komnar, þeir sem pöntuðu peysur geta nálgast þær hjá heima hjá Einsa og Jenný.

14.08.2009 23:55

Þegar Einherji fer til Fáskrúðsfjarðar

... eru lukkdísirnar skildar eftir heima...

Það var allavega þannig í enn eitt skiptið, núna í kvöld. Einherji og Leiknir gerðu 2-2 jafntefli þar sem Símon og Gulli skoruðu mörk Einherja.

Fréttaritari var ekki sjálfur á leiknum og því ber að taka þessari stuttu umfjöllun með fyrirvara.

Einherji byrjaði leikinn betur og átti góðar sóknir. Á endan bar það árangur eftir hornspyrnu. Þá kom næstlágvaxnasti maður riðilsins skallaði boltann í netið, í 3. sinn í sumar. Hann er einnig þekktur sem Símon. En Leiknir náði að svara fyrir sig. Boltanum var spyrnt í hendina á Gulla og vítaspyrna dæmd. Einhverjir vildu meina að það hefði gerst fyrir utan teig en dómnum var ekki breytt. Í leiðinni fékk fyrirliðinn okkar sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir óíþróttamannslega framkomu. En þrátt fyrir að vera einum færri náðu Einherjamenn að komast aftur yfir þegar Gulli skoraði laglegt mark. Í lokinn sóttu Leiknismenn talsvert og þegar það var komið eins langt inn í uppbótartíma og hugsast getur, dæmir hann aðra vítaspyrnu á títtnefndan Gulla. Einhverjir vildu meina að það hafi verið algjört kjaftæði. Leiknir skorar og leikurinn er búinn.

Ömurlegt hreint út sagt. En það er einn leikur eftir á móti liðinu sem við erum búin að taka 3svar sinnum í sumar. Að segja allt er þegar þrennt er á ekki við núna, því það verður örugglega stefnt að fjórða sigurleiknum. En Huginsmenn koma örugglega dýrvitlausir í þann leik svo það verður erfitt.

Áfram Einherji!

-KG

13.08.2009 12:47

Leiknir - Einherji

ATH! Breyttur leiktími: kl 19 föstudaginn 14. ágúst á Fáskrúðsfirði

11.08.2009 22:41

Úrslitakeppnin úr sögunni?

Þriðja tapið í röð á heimavelli. 1-2 á móti Dalvík/Reyni, Donni með mark Einherja.

Byrjunarlið:
                   Tomislav
Arnar    Ívar       Bjarni      Daníel
         Helgi Gísli Símon
Daði                                 Donni
                    Matti

Varamenn: Bjartur, Kristófer, Bjarki, Gulli, Smári

Leikskýrslan

Í stuttu máli var fyrri hálfleikur frekar leiðinlegur. Lítið var um færi, nema tvö sem D/R fékk, annars bara skot og hálffæri. Hálfleikurinn var nokkuð jafn þó að D/R hafi verið eitthvað meira með boltann.

Fyrstu 35 mínútur seinni hálfleiks, voru skelfilegar. D/R fengu nokkur færi og tvö þeirra enduðu í netinu. Eftir seinna markið rifu þó heimamenn sig loksins upp af rassgatinu og fóru að spila almennilega 1-2 snertinga fótbolta. Það skilaði sér í því að Einherji sótti án afláts síðustu mínúturnar en náði því miður aðeins að setja eitt mark. Það var Donni sem skoraði eftir glæsilega sendingu Helga (leiðréttið ef það var einhver annar)inn fyrir flata vörn D/R. Svo komu nokkur færi eins og frír skalli sem Gulli fékk rétt áður en lokaflautið gall. Einnig má geta þess að Einherji átti að fá vítaspyrnu sem var svo augljós að það sást frá Suðurpólnum að það væri víti. Hvað sem því líður var þetta verðskuldaður sigur sterks liðs Dalvíkur/Reynis, þeir voru einfaldlega betri í kvöld

Það er ekki hjá því komist að pæla í hvað er að hrjá Einherjaliðið þessa dagana. Vantar upp á líkamlegt form? Er reynsluleysið að koma í ljós?  Einbeitingarleysi? Metnaðarleysi? Andleysi? Málleysi? Er liðið bara ekki betra? Það er allavega eitthvað sem veldur því að liðið hefur tapað þremur heimaleikjum í röð og í raun ekki leikið vel í 6 leiki í röð.

En það var þó ekki allt neikvætt við þennan leik. Bjarni var að vanda traustur, Donni reyndi og stríddi oft varnarmönnum Dalvíkur/Reynis. Tomislav gerði sitt og alls ekki hægt að kenna honum um mörkin. Gísli var oft á tíðum sterkur. Svo áttu nokkrir sín moment, eins og Danni, en það var ekki nóg. Síðasta korterið var gott hjá öllu liðinu og vonandi það sem koma skal. Þar áttu frískir varamenn sinn þátt og verður að minnast á að efnilegur drengur að nafni Bjartur Aðalbjörnsson, sýndi að hann er óhræddur og alveg að verða tilbúinn í meistaraflokksbolta.

Þó það hafi í sjálfu sér verið slatti af fólki sem mætti á völlinn í kvöld, hafa ekki verið færri á heimaleik í sumar. Það er leiðinlegt að ekki fleiri hafi séð sér fært að mæta á þennan svakalega mikilvæga leik. Vonandi verður annað uppi á teningnum í síðasta heimleiknum og Vopnfirðingar fjölmenni sem aldrei fyrr.

En fyrst er útileikur gegn Leikni kl 14 á Laugardaginn. Strákarnir hljóta að ná að rífa sig upp og mæta grimmir í þann leik. Þó að möguleikarnir á að komast í úrslitakeppnina séu litlir, verður tímabilið vonandi klárað með sæmd.

Áfram Einherji! alltaf..

-KG

10.08.2009 17:56

Hugsanlega mikilvægasti leikur sumarsins

Á morgun, þriðjudag, mætast liðin í 2.-3. sæti D-riðilsins, Einherji og Dalvík/Reynir. Leikurinn hefst kl 19:00 og verður á Vopnafjarðarvelli. Liðin eru jöfn að stigum og því hægt að tala um svokallaðan "6 stiga leik."

Hluti Einherjaliðsins í sparifötunum.

Það er betra ástand á liði Einherja heldur en síðast. Davíð er ennþá í banni og svo er Öystein meiddur.

Það hljómar örugglega eins og klisja en Einherji þarf virkilega á stuðningi Vopnafirðinga að halda í þessum leik. Nú eru komnir 3 leikir án sigurs og því verður á snúa við .Einherji á fullt erindi í úrslitakeppnina en til þess að það gerist þurfa allir að leggjast á eitt og styðja liðið.

Komum í appelsínugulu og yfirgefum völlinn hás

-Áfram Einherji!

08.08.2009 16:46

Jafntefli á Akureyri

Leik Draupnis og Einherja lauk fyrir hálftíma síðan og fór leikurinn 3-3. Helgi skoraði fyrsta mark Einherja úr víti og síðan bætti Matti við tveimur mörkum. Samkvæmt heimildamanni fréttaritara var hann bestur hjá Einherja í þessum leik. Einherji komst í 3-1 þegar lítið var eftir en fékk svo á sig 2 klaufaleg mörk. Þetta þýðir að Einherji og D/R eru nú jöfn í 2. sæti með 19 stig.

Næsti leikur er einmitt gegn Dalvík/Reyni hér heima á þriðjudaginn kl 19!

Áfram Einherji!

-KG

07.08.2009 14:40

Draupnir - Einherji

Einherji fer í heimsókn til Draupnis á morgun, Laugardag. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og fer fram í Boganum.

Þó að Einherji hafið unnið Draupni síðast 5-0 án vandræða, gæti þetta orðið mjög erfiður leikur. Í þann leik vantaði marga lykilmenn Draupnis og þar að auki bættu þeir við sig nokkrum leikmönnum um daginn. Svo má ekki gleyma því að það er aðeins öðruvísi að spila fótbolta af gervigrasi og það er eitthvað sem Einherjaliðið hefur ekki gert upp á síðkastið.

Í Einherjaliðið vantar Donna og Davíð sem eru í banni. Svo heyrði fréttaritari í vikunni að það væri tæpt með einhverja. Svo er Helgi Már veikur, en ætti samt að spila. Þetta kemur þó náttúrulega í ljós á morgun.

En sama hvaða 11 einstaklingar klæðast Einherjatreyjunni, þá verður sótt til sigurs. Dalvík eru komnir uppfyrir okkur og vonandi verða þeir þar ekki lengur eftir leikinn á morgun.

Vonandi sjá allir Einherjamenn, á Akureyri og í kring, sér fært að mæta!

Áfram Einherji!

-KG

06.08.2009 15:28

Öystein Magnús Gjerde í Einherja

Einherji hefur fengið til sín liðsstyrk fyrir lokaátökin í 3. deildinni. Það er Öystein Magnús Gjerde, varnarsinnaður leikmaður, sem kemur til okkar á láni frá Hetti. Hann er fæddur 1991 og hefur leikið með 2. flokki Hattar í sumar. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn!

Þetta gæti reynst ansi dýrmætur liðsstyrkur. T.a.m. er Davíð að fara í tveggja leikja bann, Donni eins leiks og þar að auki eru nokkrir tæpir á að fara í bann. Svo er Daði að fara í frí og missir af lokum riðlakeppninnar.
  • 1
Flettingar í dag: 95
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 317804
Samtals gestir: 75538
Tölur uppfærðar: 14.10.2019 08:16:11