06.06.2009 13:21

Fjórði sigurleikurinn í röð: 3-2

Leikurinn á Vopnafjarðarvelli í gær var merkilegugur fyrir ýmissa hluta sakir. Í fyrsta lagi var þetta bráðskemmtilegur leikur sem bauð upp á margt eins og 5 misfalleg mörk. Í öðru lagi spiluðu feðgar saman fyrir hönd Einherja - Gísli Freyr Ragnarsson og Ragnar Antonsson. Nú spyr undirritaður: Hefur það gerst á Íslandi? Og hve oft? Í þriðja lagi var hávaðinn frá áhorfendum vel yfir meðallagi. Vopnfirðingar létu ágætlega í sér heyra og sérstaklega í seinni hálfleik En Dalvík/Reynir stal senunni og mætu með ca. 15 manna stuðningslið, sem söng, barði trommur og studdi sitt lið allan leikinn. Frábært að fá þá hingað í heimsókn og settu þeir virkilega skemmtilegan svip á leikinn.

Byrjunarlið
                      Tomislav
Arnar      Helgi       Davíð       Daníel
                Gísli      Símon
Daði               Gulli                 Donni
                         Elmar


Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og einkenndist fyrri hálfleikur af mikilli baráttu og að gestaliðið var meira með boltann. Eftir aðeins nokkrar mínútur varð Einherjir fyrir áfalli þegar Daníel fékk slæmt höfuðhögg svo hann þurfti að fara burt með sjúkrabíll. Þorsteinn kom í hans stað og sem betur fer var þetta ekki mjög alvarlegt, þó það hefði þurft að slá Danna svo hann sofnaði ekki! En leikurinn hélt svo áfram og á 24. mínútu dróg heldur betur til tíðinda þegar Dalvíkingar ætluðu að hreinsa frá eftir útspark Tomislav en boltinn endaði í markinu. Markið var svo furðulegt að svo virtist sem áhorfendur hafi ekki áttað sig alveg á hvað hafði gerst. Eftir þetta sóttu Dalvíkingar nokkuð og uppskáru á endanum víti sem þeir skoruðu úr. Undirrituðum fannst það hinsvegar frekar ódýrt.

Seinni hálfleikur fór ekki vel á stað fyrir heimamenn. Dalvíkingar fengu aukaspyrnu á vinstri kanti, gáfu góðan bolta á fjarstöng þar sem Dalvíkingur þeirra stakk sér á milli Einherjamanna og kom Dalvíkingum yfir. Fljótlega eftir þetta komu Bjarki og Matti inn á fyrir Elmar og Arnar og frískuðu dálítið upp á leik Einherja. Það var það sem þurfti og á 69. mínútu fiskaði Donni aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Hann reyndi þó ekki að skora sitt 3. aukaspyrnumark  á tímabilinu, heldur var það sjálfur þjálfarinn sem mætti fram og setti boltann fyrir vegginn, 2-2. Aðeins 6 mínútum síðar geystist Donni upp kantinn, gaf á Daða, sem gaf á Matta. Hann virtist vera að klúðra sókninni þegar hann klobbaði varnarmann og kláraði svo færið vel. Allt trylltist gjörsamlega á vellinum við þetta. Síðustu mínúturnar voru mjög langar og fengu Dalvíkingar tækifæri til að jafna. En Tomislav reyndist þeim erfiður og að öðrum ólöstuðum var hann maður leiksins, allavega hjá Einherja. 3-2 sigur staðreynd - fjórði sigurleikurinn í röð.

Strákarnir hafa spilað fallegri fótbolta og til að mynda var fyrliðinn ekki með sinn besta leik, samt sem áður komust þeir upp með það. Ekki var auðvelt að sjá hvort liðið var reyndara og sýnir það að mati undirritaðs að Einherji er með gæðalið sem getur, ef menn halda rétt á spöðunum, verið í toppbaráttu í þessum riðli. Varnarleikurinn í heild verður bara öruggari með hverjum leik, samt vantaði Smára sem hefur verið vaxandi með hverjum leik, Ívar er í fríi og svo er Bjarni Þorsteinsson ekki ennþá komið. Það kemur bara maður í manns stað og stóð Helgi fyrir sínu. Miðjumennirnir eiga líka hrós skilið fyrir að gefa engan frið í baráttunni fyrir framan vörnina. Síðast en ekki síst átti nýi markvörðurinn hann Tomislav Bencun stórleik.

Áhorfendur stóðu sig líka vel og stemmingin kannski lík því sem var á gullaldarárum? Það væri samt sem áður skemmtilegra ef allir kæmu út úr bílunum. Allavega fleiri, hvert hvatningaröskur telur.

Næsti heimaleikur er settur 20. júní, en það er líklegt að því verði breytt því bikarleikurinn við Keflavík á að fara fram 2 dögum áður. Þangað til á Einherji útileik á móti Leikni Fáskrúðsfirði á Fimmtudaginn kl 20. Ég hvet fólk til að safna saman í bíla og taka góðan kvöldrúnt að styðja strákana. Undirritaður ætlar að gera það og vonar að hann verði ekki einn á ferð!


Boltinn á leiðinni í netið eftir aukaspyrnu Davíðs

-KG
Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 170
Flettingar í gær: 1496
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 310795
Samtals gestir: 75097
Tölur uppfærðar: 22.9.2019 09:44:42