16.07.2009 00:40

Ævintýralegur sigur í lélegum leik

Það má segja ýmislegt um leikinn í gærkvöldi og glæsilegan sigur Einherja. Heppni, viðbjóðsleg heppni, meistarheppni, seigla, karakter, dramatík eru nokkuð orð sem gætu lýst því. Það eina sem skiptir máli er að Einherji kom heim með 3 stig og strákarnir sáu til þess að enginn Einherjamaður sem mætti á völlinn sá eftir tíma og peningi sem fór þessa ferð.


Mynd: Jósep H Jósepsson

Byrjunarlið:
                       Tomislav
Arnar        Davíð    Bjarni      Daníel
                        Helgi
                  Símon   Gísli
Daði                                     Donni
                      Marteinn

Bekkur: Bjarki, Raggi, Ívar, Smári og Elmar

En það voru fjölmargir Vopnfirðingar sem mættu á Seyðisfjarðarvöll til að sjá okkar menn spila gegn  Huginn, sem bætti við sig sjö leikmönnum við opnun félagsskiptagluggans. Eins og svo oft áður hófst leikurinn með frekar rólegu miðjumoði en svo náðu Huginsmenn tökum á leiknum og sköpuðu sér 2 - 3 færi. En á 25. mínútu átti Tomislav útspark sem fór beint á kollinn á Matta. Hann flikkaði boltanum inn fyrir á Donna, sem stakk varnarmann Hugins af og bombaði boltanum í þaknetið 1-0! Fram að hálfleik voru Huginsmenn með betri tök á leiknum en þó sýndu Einherjar oft fína takta. 1-0 í hálfleik.


Marki Donna fagnað                                                                                    Mynd: Jósep H Jósepsson

Fyrri hálfeikurinn hjá Einherja var ekkert spes, en þó skömminni skárri en seinni hálfleikur. Huginn sótti nær látlaust allan seinni hálfleikinn. En sköpuðu sé þó lítið af alvöru marktækifærum. Fengu reyndar nokkar hornspyrnur sem Einherji átti í vandræðum með. Pressa Hugins endaði að sjálfsögðu með því að þeir skoruðu, en ekki var markið af dýrari gerðinni. Kantmaður þeirra var að verða kominn að endalínu þegar hann skaut/sendi boltann inn í teig þar sem Tomislav reyndi að grípa boltann. Það tókst ekki betur en svo að hann misst boltann í fæturnar á Helga. Helgi náði ekki valdi á boltanum og sóknarmaður Hugins potaði boltanum inn. 1-1 á 57. mínútu. Eftir þetta hélt pressa Hugins áfram. Síðustu mínúturnar voru langar . Það virtist sem margir af Vopnfirðingunum sem voru á vellinum væru að bíða eftir lokaflautinu enda virtust menn getað prísað sig nokkuð sæla með jafntefli úr þessum leik. En þá var brotið á Donni við hornfánann hægra meginn. Donni tók góða aukaspyrnu sem sveif yfir alla í teignum. Nema Bjarna, sem lúrði á fjarstöng og skallaði boltann í bláhornið. Það væri athyglisvert ef það hefði náðst upptaka af fagnaðarlátunum sem brutust út eftir þetta. Sætara getur það ekki verið. Eftir þetta tók Huginn miðjuna og dómarinn, sem átti fínan leik í gær (það er í lagi að minnast á dómarann þótt hann hafi ekki verið ömurlegur), flautaði leikinn af. Lokatölur 1-2

Bjarni hafði ástæðu til að brosa                                                                   Mynd: Jósep H Jósepsson

Það er frábært að Einherji hafi unnið þennan leik með þeim fótbolta sem liðið var að spila. Hann var ekki góður. Undirrituðum fannst mest muna um það að miðjumennirnir þrír spiluðu allir undir getu og að menn voru að sparka boltanum fullmikið frá sér með löngum háum sendingum. Það er erfitt að benda á einhverja sem voru að spila vel. En þó það sé ekki nema fyrir sigurmarkið og að hafa oft lokað í vörninni að Bjarni hafi verið að spila best. Það verður líka að minnast á þátt Donna sem skoraði og lagði upp. En sigur er sigur - eru það ekki bara góð lið sem komast upp með að spila illa og sigra?

Nú eru strákarnir búnir að hrista Huginn af sér í bili. Sem er gott, því Huginsliðið virkaði sterkara í gær heldur en í fyrri viðureignum þessara liða. En Dalvíkingar eru ennþá einungis tveimur stigum á eftir svo það má ekkert slaka á.

Næsti leikur er gegn Leikni þriðjudaginn nk. hér heima. Vonandi koma sem flestir á fyrsta heimaleikinn í næstum 3 vikur. Undirritaður étur hattinn sinn ef Einherji spilar ekki betri bolta í þeim leik. Það er allavega mannskapurinn til þess!

--------------------------------------------------------
Donni fyrirliði skrifaði smávegis sem hann vildi að ég myndi birta hér:
Ég vil þakka öllu fólki á Vopnafirði fyrir frábæran stuðning, við eigum lang besta stuðningsmannalið á Íslandi:) En núna erum við búnir að spila 2 leiki og þeir voru ekki góðir hjá okkur en fjögur stig með meistarheppni. En við lofum núna að rífa okkur upp úr þessari lægð og klára riðilinn með stæl. Við ætlum að fara í hvern einasta leik á 120. Það sem er að skila þessu hjá okkur í sumar, er að við erum bestu vinir og erum eins og stór fjölskylda. Við erum til að hjálpa hverjum öðrum á æfingum og í leikjum og svo með ykkur á bakvið okkur er bara snilld:) Takk fyrir allt og vonandi verður troðið á leiknum á Þriðjudaginn.

kv. Fyrirliðinn

--------------------------------------------------------

Áfram Einherji!

-KG
Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 309182
Samtals gestir: 74912
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 02:58:22