19.08.2009 23:47

Huginn part 4 - síðasti leikur sumarsins

Á laugardaginn nk. mun Einherji ljúka þáttöku sinni í Íslandsmótinu þetta árið. Þá kemur Huginn í heimsókn á Frímerkið og hefst leikurinn klukkan 14:00. Fjörið hefst samt kl 13:30 með grillveislu í boði HB Granda og Kristjáns bakarí, svo mæti tímanlega!

Þetta verður fjórði leikur þessara liða í sumar og er skemst frá því að segja að Einherji hefur haft hreðjatak á Huginn hingað til. Í fyrsta leiknum, sem var í bikarnum, unnu strákarnir 3-0. Matti, Donni og Daði með mörkin. Síðan 5-2 þar sem Davíð, Matti, Daði og Símon(2 mörk) skoruðu. Loks mættust þessi lið á Seyðisfirði þar sem fór 2-1 í dramatískum leik. Bjarni skoraði með síðustu snertingu leiksins en áður hafði Donni skorað.

Það er samt margt sem bendir til þess að leikurinn á laugardaginn verði virkilega erfiður. Huginn er í baráttu við Dalvík/Reyni um sæti í úrslitakeppni og með sigri tryggja þeir sig áfram. Það er líka öruggt að þeir mæta á fullum krafti í þennan leik einfaldlega af þeirri ástæðu að þeir vilja ekki tapa fyrir okkur í 4. skiptið í röð. Síðast en ekki síst bættu þeir við sig 7 leikmönnum í félagsskiptaglugganum og hafa verið á mjög góðri siglingu upp á síðkastið.

Hjá Einherja hefur leiðin aftur á móti legið niður á við. Höfum misst af sæti í úrslitakeppni og erum nú í 4. sæti. Það er þó árangur sem má vel við una með nýtt og reynslulítið lið og fyrirfram hefðu margir verið sáttir við það. Með sigri á laugardaginn er þó möguleiki á 3. sæti!

Ástandið á hópnum er sæmilegt fyrir utan að það vantar fjóra byrjunarliðsmenn. Daði er í frí og svo eru þrír í banni. Fyrst ber að nefna Arnar Geir, sem hefur átt hægri bakvörðinn í sumar, síðan Donna fyrirliða og síðast en ekki síst Tomislav. Þar af leiðandi vantar markmann og þegar þetta er skrifað er ekki víst hver verður á milli stanganna! En það eru þó líka góðar fréttir því Öystein verður líklega loksins með.

En þó að þessi leikur líti ekki vel út fyrirfram verða samt 11 leikmenn í hvoru liði á laugardaginn og allt getur gerst. Það kemur maður í manns stað og menn hljóta að vilja klára skemmtilegt sumar með sæmd og "feisa" svarsýnann fréttaritara, með því að sigra. Þetta er leikur upp á stoltið.

Vonandi taka svo aðrir Vopnfirðingar sig saman og verða 12. maðurinn

Áfram Einherji!

-KG


Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 40
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 309182
Samtals gestir: 74912
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 02:58:22