Færslur: 2009 Júní

30.06.2009 22:17

Einherji - Draupnir

Á Fimmtudagskvöldið nk. kl 8 mætir Draupnir frá Akureyri í heimsókn á Frímerkið. Draupnir er nýtt lið sem samstendur af strákum sem hafa spilað upp yngri flokkana hjá KA og Þór. Svo eru líka einhverjir úr öðrum liðum í Eyjafirði. Síðast en ekki síst eru 2 fyrrverandi leikmenn Einherja að spila með Draupni, þeir Garðar Marvin Hafsteinsson og Birgir Þór Þrastarson. Draupnismönnum hefur gengið upp og ofan í byrjun tímabilsins og sitja á botninum. Í síðustu tveimur leikjum hafa þeir þó sýnt einhverjar framfarir og unnu Leikni 2-0 í síðasta leik. Síðan stóðu þeir uppi í Dalvíkingum og sóttu stig á Seyðisfjörð. Á draupnir.blog.is má sjá að einn leikmaður þeirra er búinn að bíða eftir því í 30 ár að koma hingað, svo þeir eru alveg örugglega ekki að fara að mæta hingað með hálfum hug.

Hjá Einherja eru menn í ágætis standi, nema að það er ólíklegt að Gulli verði tilbúinn . Svo er Elmar í fríi. Einherji er ennþá í 2. sætinu en Dalvík/ Reynir er hinsvegar einungis 2 stigum á eftir. Það má því ekki mikið út af bregða og vonandi fer enginn að eyðileggja heimvallarárangurinn, sem er 11 leikir án taps. Ekki má gleyma að Völsungar eru alls ekki ósnertanlegir á toppnum, 5 stigum á undan Einherja.

Það má reikna með Einherjamönnum dýrvitleysum í þennan leik, þar sem sigur er það eina sem kemur til greina. Vonandi mæta áhorfendur líka dýrvitlausir. Hvetjum og hugsum um það eina á vellinum sem skiptir máli - Einherja!

-Áfram Einherji

KG

27.06.2009 17:06

Að missa af sigri á 94. mínútu er ömurlegt

Á Laugardag mættust toppliðin í D riðli 3. deildar, Einherji og Völsungur, í miklum baráttuleik á Vopnafjarðarvelli.


Það eru loksins komnar nýjar treyjur frá Henson með auglýsingum frá Bílum og Vélum, og Mælifelli

Byrjunarlið:
                Tomislav
Arnar   Bjarni   Davíð   Daníel
                  Helgi
            Gísli    Símon
Donni                            Daði
                   Elmar
Bekkurinn: Bjarki(inn fyrir Helga á 45.), Matti(inn fyrir Elmar á 39.), Ragnar, Ívar og Adam

Leikurinn fór vel af stað fyrir Einherja. Strákarnir sóttu meira en Húsvíkingarnir og það skilaði sér með marki á 12. mínútu. Það var Bjarni sem skoraði með skalla eftir hornspyrnu, glæsilegt mark. Eftir þetta komst þó Völsungur meira inn í leikinn og það var í raun það sem koma skyldi. En aftur á móti náðu þeir ekki að skapa sér neitt almennilegt, enda virkaði vörn okkar manna öruggari en oft áður. Einherjamenn lágu þó ekki bara í vörn og áttu nokkrar rispur fram á við. T.d. átti Donni skot úr aukaspyrnu sem var varið glæsilega. 1-0 í hálfleik.

Dauðafæri


En svo kom mark í hornspyrnunni á eftir

Í byrjun seinni hálfleik náðu okkar menn að komast aðeins inn í leikinn en fljótlega voru Völsungar aftur komnir með yfirhöndina og voru meira með boltann. En eins og í fyrri hálfleik sköpuðu þeir sér lítið. Það fór í taugarnar á þeim og til marks um það nældu 5 leikmenn Völsungs sér í gul spjöld. Sóknarlotur Einherja voru fáar  en þó skapaðist hætta í nokkur skipti. T.d. þegar önnur aukaspyrna frá Donna var varin í slá og svo náði Daði næstum sendingu inn á teig sem hefði 95% endað með marki. Undir lok venjulegs leiktíma héldu margir að Völsungur myndi jafna þegar sóknarmaður þeirra slapp í gegn. En hann vippaði boltanum í stöngina og allt benti til þess að sigur væri í höfn. En dómarinn bætti við heilum 5 mínútum og ca. þegar 94 mínútur voru búnar af leiknum misstu okkar menn boltann á miðjunni. Völsungur geystist í sókn þar sem enginn náði að koma boltanum í burtu og það endaði með góðu skoti í bláhornið - óverjandi fyrir Tomislav.

Markmaður Völsungs ver aukaspyrnu Donna
Það er rosalega svekkjandi að hafa misst þetta svona í lokin og í raun eins og að hafa tapað leiknum. En hefði Völsungur verið yfir allan leikinn og Einherji jafnað, væri þessum leik fagnað sem sigri. Svo myndi einhver segja að þetta væru sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins, svo eftir allt er 1-1 ekki sem verst. Þó svo að sigur, sérstaklega á heimavelli, sé alltaf það sem stefnt er að. Einherjaliðið hefur vaxið svakalega frá byrjun mótsins því Völsungur vann okkur 7-1 í fyrsta leik tímabilsins. Þar að auki er Einherji fyrsta liðið til að taka stig af Völsungi, sem spáð er sigri í 3. deildinni. Menn verða að hafa það jákvæða hugfast og stíga svo skrefinu lengra í framför og vinna þá í seinni heimaleiknum þann 30. júlí.

Næst á dagskrá er heimaleikur gegn Draupni á fimmtudaginn kl 8. Draupnir er sem stendur í neðsta liðið í riðlinum en hefur samt sótt stig á Seyðisfjörð ogunnið Leikni. Í fyrsta leiknum gegn Draupni vann Einherji 3-1 með mörkum í blálokin. Sem sagt, alls, alls ekki gefins og það er það sama sem gildir og venjulega, strákarnir þurfa allan mögulegan stuðning!

Áfram Einherji!

-KG

Það eru fleiri myndir í myndalbúmi merkt Einherji-Völsungur

Leikskýrslan er komin á ksi.is: http://ksi.is/mot/motalisti/leikskyrsla/?Leikur=209352

23.06.2009 22:33

10. sigurinn í röð á Vopnafjarðarvelli

Einherji vann í kvöld glæsilegan 5-2 sigur á Huginn. Leikurinn var góð skemmtun, áhorfendur margir og duglegir að hvetja sín lið, veðrið frábært og Einherji vann. Gerist það betra?
Það voru fjölmargir sem lögðu leið sína á leikinn á Vopnafjarðarvelli í kvöld. Með krökkum, ársmiðahöfum, u.þ.b. 100 seldum miðum á staðnum og svo nokkrum sem ekki borguðu, má áætla að það hafi ekki verið u.þ.b. 150, ef ekki fleiri. Það verður að teljast glæsilegt í tæplega 700 manna sveitarfélagi og vonandi er þetta það sem koma skal. Reyndar eiga nokkrir hressir Seyðfirðingar þátt í þessum fjölda. En að leiknum...

Byrjunarlið:
               Tomislav
Arnar- Bjarni - Davíð - Daníel
                Helgi
Daði - Símon - Gísli(fyrirliði)- Gunnlaugur
                 Elmar

Varamenn: Ívar(Inn fyrir Gulli á 46.), Marteinn(inn fyrir Elmar á 78.) Bjarki, Þorsteinn og Ragnar(allir inn á 88. fyrir Arnar, Helga og Daníel)

Takið sérstaklega eftir því að aðeins 4 af 16 leikmönnum eru ekki Vopnfirðingar.

Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað en þó höfðu Huginsmenn undirtökin í byrjun. Lítið gekk í sóknarleik Einherjamanna og greinilegt að strákarnir söknuðu Donna þessar fyrstu mínútur. Síðan átti eftir að koma í ljós að gamla klisjan "maður í manns stað" á við hjá þessu liði. Á 26. mínútu dróg til tíðinda þegar fyrirliði Huginsmanna tók þverhlaup hjá vörninni, sem klikkaði á rangstæðugildrunni, stakk sér inn fyrir og skoraði. Eftir markið lifnaði yfir Einherjamönnum og aðeins 4 mínútum síðar átti Arnar frábæran bolta á fjarstöng þar sem Símon flaug eins og súperman og stangaði boltann glæsilega í netið. Það sem eftir lifði hálfleiksins fengu bæði liðin sín tækifæri og m.a. bjargaði Tomislav glæsilega rétt fyrir leikhlé.

Í seinni hálfleik hélt Tomislav uppteknum hætti og varði vel. En annars dróg fyrst almennilega til tíðinda á 55. mínútu. Gísli var felldur eftir að hafa sólað markvörð Hugins og vítaspyrna dæmd, sem fór vægast sagt í taugarnar á Huginsmönnum. Davíð steig á punktinn og skoraði örugglega. Aðeins 2 mínútum síðar voru Huginsmenn ekki alveg búnir að ná sér eftir vítið. Davíð tók aukaspyrnu sem Gísli flikkaði áfram á Daða sem lagði boltann snyrtilega framhjá markverðinum, 3-1. Á 85. mínútu kom svo síðasti naglinn í líkkistu Hugins. Símon átti skot ca. 30 metra færi sem flestir héldu að væri að fara yfir en datt svo í bláhornið. í uppbótartíma komu svo 2 mörk. Það fyrra var svakalegt mark úr aukaspyrnu hjá Huginn og síðan slapp Matti "super-sub" einn inn fyrir, sólaði markvörðinn og skoraði. Lokatölur 5-2


Davíð að fara að taka vítaspyrnuna

Þessi fékk að fagna tvisvar

Það er frábært að sjá hungrið og viljann sem einkennir Einherjaliðið þessa dagana. Það hefur líka skilað sér því liðið er eitt í 2. sæti þegar fyrsti þriðjungur riðlakeppninnar er búinn. Einherji var alls ekki að yfirspila Huginn í þessum leik þrátt fyrir 5 mörk og nokkrar flottar sóknir. En fótbolti er ekki flókinn íþrótt, Einherji skoraði fleiri mörk og vann. Tomislav átti enn og aftur góðan leik og varði allavega 2svar stórglæsilega. Hann tók svo flest sem hann átti að taka, þrátt fyrir úthlaup sem minna á Frakka sem er svipað hárprúður og Einar Björn. Vörnin var ekki alveg nógu góð á köflum, en það fer að smella saman þegar Bjarni Þorsteinsson kemst betur í takt við liðið. Miðjan var svona upp og ofan. Helgi hefur og getur spilað betur en Gísli og Símon(maður leiksins að mati undirritaðs) sýndu takta og gáfu lítinn frið. Daði var sprækur á köflum en Gulli komst ekki í takt við leikinn þann hálftíma sem hann spilaði heill. En skv. nýjustu upplýsingum er hann með brákað rifbein og vonandi verður það fljótt að jafna sig! Elmar var svolítið einmanna uppi á toppi en sýndi þó nokkru sinnum hvað hann getur. Leikmaður sem á meira inni. Síðan áttu allir varamennirnir góða innkomu og þá sérstaklega Ívar og Matti. En eins og áður var það liðsheildin og sigurviljinn sem skóp þennan sigur. Frábært. Liðið á hrós skilið.

Næsti leikur hér heima er toppslagur gegn Völsungi á laugardaginn, 27. júní kl 14. Síðast tapaði Einherji illa 7-1 og það má ekki gerast aftur. Oft var þörf en nú er nauðsyn - fjölmennum og öskrum úr okkur lungun!

Áfram Einherji!

-KG

22.06.2009 17:41

Einherji - Huginn á morgun!

Á morgun, þriðjudag mætast Einherji og Huginn á Vopnafjarðarvelli klukkan 20.. Þessi lið deila nú 2. sætinu í riðlinum en með sigri tyllir Einherji sér eitt í 2. sætið. Fjölmennum nú á fyrsta heimaleikinn í næstum 3 vikur!

Skora á fólk að mæta í appelsínugulu!

-KG

19.06.2009 13:47

Frábær barátta í 2-0 tapi

Það er erfitt að skrifa um leik sem maður sá ekki en ég ætla þó að segja frá því sem ég hef lesið og heyrt frá þeim sem voru á staðnum. Svo vinsamlegast takið þessari umfjöllun með smá fyrirvara.

En Einherji og Keflavík mættust á Suðurnesjunum í gær í hörkuleik. Fjölmargir mættu til að styðja Einherja(einhver giskaði á ca. 80) sem er frábært með tiliti til að um er að ræða 3. deildarlið sem eins langt frá Keflavík og hugsast getur!

Leikurinn fór ekki vel af stað því að eftir tæpa mínútu skoraði Stefán Örn Arnarsson eftir fyrirgjöf og hefur sjálfsagt margir kviðið fyrir því að 89.mínútur væru eftir. En Einherjamenn létu það ekki brjóta sig niður og náðu með mikilli baráttu að standa uppi í hárinu Keflvíkingum, þrátt fyrir að hafa þurft að verjast lengst af. Þeir fengu sín tækifæri fyrir framan markið og t.d. slapp Matti einn í gegn og svo átti Gulli skot sem lág næstum inni. Í seinni hálfleik fóru Einherjamenn að færa sig aðeins framar, en þá skemmdi Stefán Örn vonina um að jafna, með því að skora sitt annað mark á 70. mínútu.

Á fotbolti.net stendur að Tomislav hafi verið besti maður Einherja, auk þess er minnst á að Donni hafi sýnt flotta takta. Svo voru Bjarni og Helgi traustir saman í vörninni. En annars var það fyrst og fremst barátta liðsins sem skipti lang, lang mestu um það að strákarnir létu það ekki líta augljóslega út að Keflavík er nokkrum klössum ofar. Það er  gaman að vita til þess að menn hafi mætt í þennan leik af fullum krafti og með enga minnimáttarkennd.

Þá er bara að skella þessu bikarævintýri í reynslubankann og einbeita sér að leiknum við Huginn á þriðjudaginn kl 20, á Vopnafjarðarvelli.

Áfram Einherji

Fyrir áhugasama eru flottar myndir úr leiknum hér: http://vf.is/ljosmyndavefur/Keflavik_Einherji/default.aspx
Takið sérstaklega eftir myndum af ansi harði tæklingu hjá Helga og svakalegum pósum sem menn sýna í hita leiksins. Zoolander hvað?

-KG

16.06.2009 12:19

Einherji - Keflavík

Á fimmtudagskvöldið nk. á Sparisjóðsvellinum í Keflavík, mun fara fram sannkallaður stórleikur. Úrvalsdeildarlið Keflvíkur og 3. Deildarlið Einherja mætast þar kl 20:00. Óhætt að segja að meirihluti leikmanna Einherja hafi ekki spilað stærri leik hingað til!

Af Einherja er það að frétta að Davíð þjálfari er í banni eftir rauða spjaldið sem hann fékk á móti í Leikni. Mikil missir en það er þó vonandi góð sárabót að Bjarni Þorsteins kemur í sinn fyrsta leik. Lítið er um meiðsli svo ég viti, nema að Elmar er tæpur.

Líklegt byrjunarlið:
                    Tomislav
Arnar     Bjarni       Helgi     Daníel
             Símon    Gísli
Gulli            Donni           Daði
                       Matti

Keflvíkingar geta eftir því sem ég best veit, stillt upp sínu sterkasta liði, fyrir utan að einn er í banni, Einar Orri Einarsson. Annars hefur gestgjöfunum gengið ágætlega í byrjun Íslandmóts, töpuðu reyndar illa fyrir KR í síðasta leik - 4-1. Lið Keflavíkur í þeim leik var svona:

Lasse Jörgensen (M), Alen Sutej, Haukur Ingi Guðnason (70. Stefán Örn Arnarson), Nicolai Jörgensen, Jón Gunnar Eysteinsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (41. Bojan Stefán Ljubicic), Brynjar Örn Guðmundsson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hörður Sveinsson (89. Magnús Þór Magnússon).

Það er leiðinlegt að geta ekki mætt sjálfur á leikinn en undirritaður vonar að hver og einasti einstaklingur með appelsínugult hjarta mæti á leikinn. Ef Einherji á að eiga séns í þessum leik þurfa strákarnir að finna góðan stuðning!

Áfram Einherji!

-KG

12.06.2009 23:38

Svekjandi jafntefli í fjörugum leik

Meistaraflokkur Einherja tók í enn eitt skiptið þátt í bráðfjörgum leik með slatta af mörkum. Það slæma er bara að þessi vannst ekki og dómarinn var í aðalhlutverki.

Leikurinn fór 3-3, en mörkin skoruðu Símon(með skalla!) og Donni setti tvö. Strákarnir voru komnir í 2-0 þegar Davíð var rekinn á velli sem var fáránlegur dómur, frá mínum bæjardyrum séð, og eiginlega eyðilagði leikinn. Annars átti dómarinn athyglisverða takta eins og að leyfa útileikmanni Leiknis að slá boltann á marklínu og svo vildu margir meina að einn leikmaður þeirra hafi fengið 2 gul spjöld, en það rauða lét standa á sér. Ekki skal ég fullyrða hvað sé rétt, en því miður er þetta stundum partur af leiknum.

En burtséð frá dómaranum voru strákarnir að spila fínasta bolta, sérstaklega í fyrri hálfleik. Vörnin var virtist svolítið taugaóstyrk í byrjun leiksins en var svo furðu góð eftir að hafa misst Davíð og þrátt fyrir að fá á sig 3 mörk. Leiknismenn fengu í raun fá færi í seinni hálfleik. Það var líka mjög gaman að sjá að strákarnir náðu undir lok leiksins að hugsa minna um dómarann og pirra sig minna á hlutunum - greinilega karakter í þessu liði. Undirritaður vonar að þessi dómgæsla sé ekki það sem koma skal og trúir því að menn láti það ekki skemma fyrir sér ef hún er slæm.

Næst er það Keflavík í bikarnum á fimmtudaginn næstkomandi. Vona að Vopnfirðingar og stuðningsmenn Einherja á SV-horninu sjái sér fært að mæta. Merkilegur leikur! Svo er leikmaður með nokkra A - landsleiki líklega að fara að spila sinn fyrsta leik í appelsínugulu treyjunni - Bjarni Óskar Þorsteinsson. Ekki veit ég til þess að það hafi gerst áður. Nema kannski Birkir Kristins, en hann spilaði þá landsleiki eftir að það var búið að kenna honum hvernig á að gera þetta... á Vopnafirði.

Nánari umfjöllun síðar.....kannski...

-KG


12.06.2009 10:55

Íslandsmót: 5. flokkur kvenna

Telpurnar í 5. flokki Einherja héldu til Neskaupstaðar í gær þar sem þær tóku þátt í fyrsta hluta Íslandsmótsins í knattspyrnu en leikið er á 4 mótum, 3 leiki í senn.  Andstæðingar okkar eru Höttur, Fjarðabyggð og Sindri, Fjarðabyggð hélt utan um fyrsta mótið.

Fyrir Einherja léku: Ágústa, Karen, Þorbjörg, Edda Björk, Steindóra, Hugrún, Gabríela Sól og Viktoría er koma frá Vopnafirði - frá Seyðisfirð Sara og Thelma.  Með hópnum auk undirritaðs, Dagný, Svanur og Þórdís.

Fyrst var leikið gegn Hetti, leikinn unnum við 4:2 og áttum alskostar við þær, lágvaxinn markvörður Hattar varði nokkrum sinnum stórvel - Karen 2, Þorbjörg og Steindóra skoruðu.  
 

Leikur tvö var gegn góðu liði Sindra, sem m. a. vann Fjarðabyggð 1:0.  Við náðum forystu með marki Karenar, þær jöfnuðu og komust yfir - við jöfnuðum, Þorbjörg,  þær skoruðu aftur en með umdeildu marki jafnaði Thelma með langskoti - sumir vildu meina að boltinn hafi ekki farið inn, Svanur var hins vegar í engum vafa um að svo var - 3:3.  Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða og barátta mikil allan leikinn.

 

Þriðji og síðasti leikur var gegn öflugu liði Fjarðabyggðar, lít svo á að þrjú lið séu jöfn að getu. Við náðum forystu með marki Karenar (í varnarmann og inn) og skömmu síðar fékk Karen dauðafæri eftir skot Þorbjargar var varið, þar hefðum við átt að komast í 2:0.  Karen, sem lék allt mótið af vel, hitti knöttinn illa og stað þess skora jöfnuðu Fjarðabyggðardömur með slysamarki; hornspyrna í öxl Karenar og inn, 1:1.  Síðan fékk Þorbjörg upplagt færi er fór forgörðum og því miður gleymdu Steindóra og có. sér, Steindóra var annars stólpi í vörninni, ein inn fyrir og skoraði fram hjá Ágústu.  Síðan kom svolítið slysamark úr langskoti en áður átti Karen skot í þverslá og síðar átti Thelma dauðafæri ein á móti markverði er sá við Thelmu.  Niðurstaðan 1:3 en við inn í leiknum allan tímann

 

Stúlkurnar féllu með sæmd í lokaleiknum, það fengu þær líka að heyra - í þetta sinn voru heilladísirnar ekki okkur hliðhollar en þær gerðu sitt besta og munu örugglega setja pressu á þetta lið næst sem og önnur. Voru Seyðfirðingar hvattir til að vera duglegir að æfa, þær lofa góðu og verði allar stúlkurnar okkar duglegar munu þær ná langt.  Allan tímann voru þær hvattar til að njóta leiksins :-)

-Magnús Már

10.06.2009 20:01

Leiknir - Einherji

Á morgun (fimmtudag) fer Einherji sina fyrstu ferð yfir Hellisheiðina þetta sumarið. Ferðinni er nánar tiltekið heitið til Fáskrúðsfjarðar þar sem Leiknir tekur á móti okkar mönnum.

Ég kvet alla Vopnfirðinga til að taka góðan kvöldbíltúr til Fáskrúðsfjarðar og hvetja strákana. Bensínið er dýrt en ef fólk sameinar í bíla þarf það alls ekki að vera dýrt

Áfram Einherji!

06.06.2009 13:21

Fjórði sigurleikurinn í röð: 3-2

Leikurinn á Vopnafjarðarvelli í gær var merkilegugur fyrir ýmissa hluta sakir. Í fyrsta lagi var þetta bráðskemmtilegur leikur sem bauð upp á margt eins og 5 misfalleg mörk. Í öðru lagi spiluðu feðgar saman fyrir hönd Einherja - Gísli Freyr Ragnarsson og Ragnar Antonsson. Nú spyr undirritaður: Hefur það gerst á Íslandi? Og hve oft? Í þriðja lagi var hávaðinn frá áhorfendum vel yfir meðallagi. Vopnfirðingar létu ágætlega í sér heyra og sérstaklega í seinni hálfleik En Dalvík/Reynir stal senunni og mætu með ca. 15 manna stuðningslið, sem söng, barði trommur og studdi sitt lið allan leikinn. Frábært að fá þá hingað í heimsókn og settu þeir virkilega skemmtilegan svip á leikinn.

Byrjunarlið
                      Tomislav
Arnar      Helgi       Davíð       Daníel
                Gísli      Símon
Daði               Gulli                 Donni
                         Elmar


Leikurinn fór nokkuð rólega af stað og einkenndist fyrri hálfleikur af mikilli baráttu og að gestaliðið var meira með boltann. Eftir aðeins nokkrar mínútur varð Einherjir fyrir áfalli þegar Daníel fékk slæmt höfuðhögg svo hann þurfti að fara burt með sjúkrabíll. Þorsteinn kom í hans stað og sem betur fer var þetta ekki mjög alvarlegt, þó það hefði þurft að slá Danna svo hann sofnaði ekki! En leikurinn hélt svo áfram og á 24. mínútu dróg heldur betur til tíðinda þegar Dalvíkingar ætluðu að hreinsa frá eftir útspark Tomislav en boltinn endaði í markinu. Markið var svo furðulegt að svo virtist sem áhorfendur hafi ekki áttað sig alveg á hvað hafði gerst. Eftir þetta sóttu Dalvíkingar nokkuð og uppskáru á endanum víti sem þeir skoruðu úr. Undirrituðum fannst það hinsvegar frekar ódýrt.

Seinni hálfleikur fór ekki vel á stað fyrir heimamenn. Dalvíkingar fengu aukaspyrnu á vinstri kanti, gáfu góðan bolta á fjarstöng þar sem Dalvíkingur þeirra stakk sér á milli Einherjamanna og kom Dalvíkingum yfir. Fljótlega eftir þetta komu Bjarki og Matti inn á fyrir Elmar og Arnar og frískuðu dálítið upp á leik Einherja. Það var það sem þurfti og á 69. mínútu fiskaði Donni aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Hann reyndi þó ekki að skora sitt 3. aukaspyrnumark  á tímabilinu, heldur var það sjálfur þjálfarinn sem mætti fram og setti boltann fyrir vegginn, 2-2. Aðeins 6 mínútum síðar geystist Donni upp kantinn, gaf á Daða, sem gaf á Matta. Hann virtist vera að klúðra sókninni þegar hann klobbaði varnarmann og kláraði svo færið vel. Allt trylltist gjörsamlega á vellinum við þetta. Síðustu mínúturnar voru mjög langar og fengu Dalvíkingar tækifæri til að jafna. En Tomislav reyndist þeim erfiður og að öðrum ólöstuðum var hann maður leiksins, allavega hjá Einherja. 3-2 sigur staðreynd - fjórði sigurleikurinn í röð.

Strákarnir hafa spilað fallegri fótbolta og til að mynda var fyrliðinn ekki með sinn besta leik, samt sem áður komust þeir upp með það. Ekki var auðvelt að sjá hvort liðið var reyndara og sýnir það að mati undirritaðs að Einherji er með gæðalið sem getur, ef menn halda rétt á spöðunum, verið í toppbaráttu í þessum riðli. Varnarleikurinn í heild verður bara öruggari með hverjum leik, samt vantaði Smára sem hefur verið vaxandi með hverjum leik, Ívar er í fríi og svo er Bjarni Þorsteinsson ekki ennþá komið. Það kemur bara maður í manns stað og stóð Helgi fyrir sínu. Miðjumennirnir eiga líka hrós skilið fyrir að gefa engan frið í baráttunni fyrir framan vörnina. Síðast en ekki síst átti nýi markvörðurinn hann Tomislav Bencun stórleik.

Áhorfendur stóðu sig líka vel og stemmingin kannski lík því sem var á gullaldarárum? Það væri samt sem áður skemmtilegra ef allir kæmu út úr bílunum. Allavega fleiri, hvert hvatningaröskur telur.

Næsti heimaleikur er settur 20. júní, en það er líklegt að því verði breytt því bikarleikurinn við Keflavík á að fara fram 2 dögum áður. Þangað til á Einherji útileik á móti Leikni Fáskrúðsfirði á Fimmtudaginn kl 20. Ég hvet fólk til að safna saman í bíla og taka góðan kvöldrúnt að styðja strákana. Undirritaður ætlar að gera það og vonar að hann verði ekki einn á ferð!


Boltinn á leiðinni í netið eftir aukaspyrnu Davíðs

-KG
  • 1
Flettingar í dag: 66
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 87
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 317775
Samtals gestir: 75538
Tölur uppfærðar: 14.10.2019 07:45:13